Umdeild refsing fyrir að leggja í einelti

Kirsten var bannað að ferðast með skólabílnum eftir að hafa …
Kirsten var bannað að ferðast með skólabílnum eftir að hafa strítt skólafélögunum sínum á leið í skólann. Þetta var í annað sinn sem hún hlýtur slíkt bann og því ákvað faðirinn að grípa til sinna ráða til að kenna dóttur sinni lexíu. Skjáskot/Facebook

Bandarískur faðir tíu ára gamallar stúlku lét hana ganga í skólann, um 8 kílómetra leið, í refsingarskyni fyrir að hafa lagt skólafélaga sína í einelti. Faðirinn, Matt Cox, birti myndskeið af þessar óneitanlegu umdeildu uppeldisaðferð og hefur það vakið hörð viðbrögð.

Dóttir hans, Kirsten, var bannað að ferðast með skólabílnum eftir að hafa strítt skólafélögunum sínum á leið í skólann. Þetta var í annað sinn sem Kirsten hlýtur slíkt bann og því ákvað faðirinn að grípa til sinna ráða til að kenna dóttur sinni lexíu.

Á mánudaginn birti hann myndband á Facebook-síðu sinni sem sýnir Kirsten ganga í skólann. Yfir 18 milljónir hafa horft á myndbandið þar sem Cox segist meðvitaður um að aðrir foreldrar muni líklega ekki verða hrifnir af þessari uppeldisaðferð.

„Einelti er óásættanlegt,“ má heyra Cox segja þar sem hann keyrir löturhægt á eftir dóttur sinni. „Ég er að gera það sem mér finnst rétt til að kenna dóttur minni lexíu og koma í veg fyrir að hún leggi í einelti.“

Í gær uppfærði Cox færsluna þar sem hann segir að dóttirin hafi lært sína lexíu. Hún sé hamingjusöm og við góða heilsu og kunni að meta einfalda hluti, eins og að fá far í skólann, upp á nýtt.

Þá greindi hann einnig frá því að Kirsten gekk ekki alla átta kílómetrana í einu heldur ákvað Cox að dreifa göngunni á þá þrjá daga sem henni var bannað að ferðast með skólabílnum.

Í athugasemdum undir færslunni á Facebook skiptast notendur í tvær fylkingar sem ýmist lofa hann og vilja útnefna hann sem faðir ársins eða gagnrýna fyrir atvikið. Þeir sem gagnrýna hann benda á að það að smána tíu ára gamalt barn opinberlega á samfélagsmiðlum sé ekki til eftirbreytni, þó svo að barnið hafi lagt önnur börn í einelti.

Frétt BBC

mbl.is