Afskipti Rússa hófust 2015

Robert Mueller (t.v.) leiðir rannsókn á afskiptum Rússa af forsetakosningunum …
Robert Mueller (t.v.) leiðir rannsókn á afskiptum Rússa af forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 2016. Donald Trump hefur gagnrýnt rannsóknina harðlega. AFP

Saksóknarar í Bandaríkjunum hafa ljóstrað því upp að Rússi hafi boðið aðstoð sína við kosningabaráttu Donalds Trump strax árið 2015. Segja saksóknararnir að fyrrverandi lögfræðingur Trumps, Michael Cohen, hafi veitt „trausta“ aðstoð við rannsókn á afskiptum Rússa af forsetakosningunum vestanhafs. 

Í aðskildu máli fóru aðrir saksóknarar fram á að Cohen yrði dæmdur til 4-5 ára fangelsisvistar fyrir fjársvik. Brotin játaði hann í ágúst. Saksóknarinn Robert Khuzami sakar Cohen, sem eitt sinn sagðist viljugur að verða fyrir skoti til að verja Trump, hafi verið knúinn áfram af persónulegri græðgi og hafi misbeitt valdi sínu. Trump tjáði sig um málið á Twitter í gær og sagði það hreinsa sig af öllum ásökunum. „Takk!“ Sagði Hvíta húsið að þær upplýsingar sem Cohen hefði lagt fram í tengslum við Rússarannsóknina hefðu ekkert vægi.

Fjársvikin sem Cohen hefur gengist við að hafa framið tengjast greiðslum til fyrrverandi hjákvenna Trumps, m.a. klámmyndaleikkonunni Stormy Daniels. Greiddi Cohen þeim til að þegja um samband sitt við forsetann.

Michael Cohen var lögfræðingur Donalds Trump árum saman.
Michael Cohen var lögfræðingur Donalds Trump árum saman. AFP

Í skjölum saksóknarans Khuzami um fjársvikin dregur hann skýra línu milli Cohens og Trump í málinu. Segist hann hafa komist að því að rétt væri það sem Cohen hefði haldið fram að hann hefði greitt konunum samkvæmt tilmælum Trumps. 

Traustar og mikilvægar upplýsingar

Í gær var svo Cohen einnig ein aðalpersónan í öðru máli. Þá var í fjölmiðlum greint frá minnisblaði Roberts Mueller, sérstaks saksóknara í Rússarannsókninni svokölluðu, að Cohen hefði gefið traustar og mikilvægar upplýsingar í tengslum við málið og aðstoðað við rannsókn þess. Hann hefði m.a. gefið rannsakendum sjö sinnum skýrslu. 

Í minnisblöðum Muellers segir að Cohen hafði lagt fram upplýsingar um tengsl Rússa við kosningabaráttu Trumps. 

Í nóvember árið 2015, um fimm mánuðum eftir að Trump hóf kosningabaráttu sína, ræddi Cohen við „trausta manneskju“, Rússa, sem hafi boðið kosningateyminu einhvers konar samstarf á „ríkisstjórnarstigi“. Samkvæmt þessu hófust afskipti Rússa af kosningunum í Bandaríkjunum fyrr en hingað til hefur verið talið.

Lagði til fund Trumps og Pútíns

Cohen segir að þessi Rússi sem um ræðir, sem hafi haft tengsl við háttsetta menn í Rússlandi, hafi ítrekað lagt til fund Trumps og Vladimír Pútíns Rússlandsforseta og sagði að hann gæti haft gríðarleg áhrif, ekki aðeins stjórnmálalega heldur einnig viðskiptalega. Í skjölum Mueller kemur hins vegar fram að Cohen hafi ekki fylgt þessu boði eftir.

Cohen hefur orðið uppvís að því að ljúga frammi fyrir þingnefnd í tengslum við rannsókn á fasteignaviðskiptum í Moskvu. Cohen, sem lengi var hægri hönd Trumps, var tengdur viðskiptunum allt þar til einum mánuði áður en Trump var útnefndur forsetaefni Repúblikanaflokksins.

Mueller hefur ekki viljað mælast til þyngri refsingar Cohens fyrir lygarnar þar sem hann hefur aðstoðað við Rússarannsóknina. 

Fasteignaviðskipti í Moskvu

Í gögnum sem nú er fjallað um í fjölmiðlum og tengjast Rússarannsókninni er gefið í skyn að Trump og fjölskylda hans hafi vitað af viðræðum Cohens við Rússa í tengslum við fasteignaviðskiptin í Moskvu, jafnvel eftir að Trump hlaut sína útnefningu um mitt ár 2016.

Sara Sanders, upplýsingafulltrúi Hvíta hússins, segir að þessar nýjustu upplýsingar hafi ekkert nýtt fram að færa í málinu. „Cohen hefur ítrekað logið og eins og saksóknarar hafa bent á þá er Cohen engin hetja.“

Vill Barr í stað Sessions

Trump hefur mótmælt rannsóknarniðurstöðum Muellers harkalega og hefur sagst ætla að svar vel fyrir sig. Stuttu síðar lýsti hann því yfir að hann hygðist tilnefna William Barr sem nýjan dómsmálaráðherra sinn í stað Jeff Sessions sem hann rak í síðasta mánuði.

 Sessions hafði reitt forsetann til reiði með því að hafa lýst sig vanhæfan í því að hafa yfirsýn yfir rannsókn Muellers þar sem hann hafi sjálfur átt í samskiptum við rússneska embættismenn.

Barr var dómsmálaráðherra í forsetatíð George H.W. Bush heitins. Barr hefur verið þekktur fyrir að gagnrýna árásir á fólk í háttsettum embættum og gæti Trump því litið á hann sem bandamann í Rússarannsókninni.

Í öðru minnisblaði Mueller í málinu segir frá því að fyrrverandi kosningastjóri Trumps, Paul Manafort, hafi ítrekað verið staðinn að lygum. Því hafi samkomulagi sem hann hafði gert við saksóknara verið rift.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert