Ákærður fyrir morð á breskri konu

Grace Millane hefur ekki sést í marga daga og er …
Grace Millane hefur ekki sést í marga daga og er nú talin látin. mynd/Skjáskot

Maður á þrítugsaldri hefur verið ákærður fyrir morð á ungri breskri konu sem var á bakpokaferðalagi um Nýja-Sjáland. Lík hennar hefur ekki fundist þrátt fyrir umfangsmikla leit.

Ekkert hefur spurst til hinnar 22 ára gömlu Grace Millane síðan hún sást ganga inn á hótel í fylgd með karlmanni í borginni Auckland. Þrátt fyrir það eru lögregluyfirvöld viss um að hún sé látin.

Ákvörðun um að ákæra manninn fyrir morðið á Grace þrátt fyrir að lík hennar hafi ekki fundist var tekin eftir að hann hafði verið yfirheyrður ítarlega.

„Grace er ekki á lífi. Við vitum ekki enn hvar hún er en við erum ákveðin í því að finna hana og koma henni til fjölskyldu sinnar,“ sagði yfirrannsóknarlögregluþjónninn Scott Beard við fjölmiðla og vísaði til þeirra sönnunargagna sem rannsókn málsins hefur leitt í ljós.

Millane var í bakpokaferðalagi eftir að hafa útskrifast úr háskóla og hafði verið í daglegu sambandi við fjölskyldu sína þangað til hún hvarf. Faðir hennar kom til Nýja-Sjálands í gær og biðlaði til almennings um aðstoð og upplýsingar í tilfinningaríku ávarpi. Hann sagði dóttur sína hafa verið glaða og mannblendna manneskju sem hafi verið í nánu sambandi við fjölskyldu sína.

Í frétt BBC um málið segir að Grace hafi verið búin að ferðast einsömul um Nýja-Sjáland í tvær vikur eftir að hafa komið úr sex vikna hópferð um Suður-Ameríku. Dvöl Grace á hóteli hennar í Auckland átti að endast til 8. desember.

Þar segir einnig að ýmsir persónulegir munir Grace séu týndir þar með talið vegabréf hennar, hálsmen og bleikt úr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert