Fyrst kom skjálftinn, svo skuldirnar

Fórnarlömb jarðskjálftans á Durbar torginu í Katmandú. Þar urðu margar …
Fórnarlömb jarðskjálftans á Durbar torginu í Katmandú. Þar urðu margar sögufrægar byggingar illa úti í jarðskjálftanum. Nepölsk yfirvöld hafa ekki efni á að endurbyggingunni og hafa tekið fjárhagsaðstoð erlendra ríkja fegins hendi. PRAKASH MATHEMA

Þau fórnarlömb jarðskjálftans í Nepal árið 2015, sem kostaði tæplega 9.000 manns lífið, sem misstu heimili sín standa nú frammi fyrir öðrum ófyrirséðum vanda. Háar skuldir vegna endurbygggingu heimila eru nú að sliga marga.

Ratna Awale telur sig í hópi hinna heppnu, en hún, eiginmaður hennar Prem og tveir synir þeirra lifðu öll af jarðskjálftann sem mældist 7,8 stig. Fjögurra hæða húsið sem þau bjuggu í borginni Patan, sögufrægri borg suður af Katmandu, varð hins vegar illa úti í skjálftanum. „Það voru stórar sprungur sem náðu frá bakhlið hússins að framhlið og helmingur jarðhæðarinnar hrundi,“ hefur Guardian eftir Awale.

Eitt þeirra húsa sem hrundu í Katmandú í jarðskjálftanum. Viðlagasjóður …
Eitt þeirra húsa sem hrundu í Katmandú í jarðskjálftanum. Viðlagasjóður Nepal er búin að meta um eina milljón bygginga eftir skjálftan og eiga eigendur 70% rétt á styrkjum. PRAKASH MATHEMA

Annað hvort borðum við eða borgum

Tjón í Nepal af völdum skjálftans er metið á andvirði um 10 milljarða dollara, eða á rúmar 1.2000 milljarða króna. Fjárhagur nepalska ríkisins var bágur fyrir. Stjórnvöld hafa þó greitt mörgum þeirra hundruð þúsunda íbúðaeigenda sem urðu fyrir tjóni um 370.000 kr. styrk til að endurbyggja heimili sín. Sú upphæð dugar þó ekki nema fyrir um 30-50% af byggingakostnaði fyrir hefðbundið fjölskylduheimili og því standa margir íbúar nú frammi fyrir nýjum vanda — að greiða upp lánin.

„Ég tók bankalán upp á eina milljón rúpía (um 1,1 milljón kr.),“ segir Awale. „Við erum að borga 14% vexti og erum nú í þeirri klípu að geta borgað af láninu eða fætt fjölskylduna. Annað hvort borðum við eða borgum af láninu.“

Á þeim svæðum sem urðu verst úti þurftu 75% þeirra sem endurreisa þurftu heimili sín að taka lán. Sumir tóku bankalán, aðrir fengu lán eftir óformlegri leiðum — frá nágrönnum, fjölskyldu eða fyrirtækjum á svæðinu — og hafa sumir verið rukkaðir um allt að 45% vexti.

Stjórnvöld fyrirskipuðu bönkum að vextir af lánunum mættu ekki vera hærri en 2%. Bankarnir voru tregir að samþykkja slíkt og höfðu lánstímann svo skamman að fæstir gátu greitt lánin upp innan tilskilins frests. Ekki höfðu nema 1.300 fengið lán á slíkum kjörum þegar kerfið var var lagt niður í síðasta mánuði.

Kona gengur fram hjá húsi sem hrundi í Chautara sveitarfélaginu. …
Kona gengur fram hjá húsi sem hrundi í Chautara sveitarfélaginu. Skuldir vegna endurbygginga heimila eru nú að sliga marga Nepali. AFP

Óttast að skuldin við Kína reynist dýrkeypt

HRRP, sérstakur vettvangur fyrir endurbyggingu húsa í kjölfar skjálftans, áætlar að vextirnir sem flestir fasteignaeigendur greiða séu um 23%.

Það eru þó ekki bara almennir íbúðaeigendur sem eru að sligast undan lánunum, því það sama á við um ýmsar menningarminjar og hof, bæði Hindúa og Búddista. Fjöldi ferðamanna hefur gert sér ferð til að skoða slíkar byggingar í gegnum tíðina og voru hofin við Durbar torgið í Katmandú, fóru illa urðu úti, til að mynda vinsæll viðkomustaður.

Endurreisnarstarf slíkra menningaminja er hins vegar ekki á færi nepalska ríkisins vegna fjárhagsstöðunnar og hefur endurreisnarstarfið því í mörgum tilfellum fjármagnað af öðrum ríkjum. Kínversk stjórnvöld hafa til að mynda verið gjafmild hvað þetta varðar og hafa nepölsk stjórnvöld tekið þeirri aðstoð fegins hendi.

Ýmsir hafa þó varað við að aðstoðin frá þessum stóra granna kunni að reynast dýrkeypt. Slík staða hafi til að mynda komið upp á Sri Lanka, en þar neyddust stjórnvöld til að láta kínverskt fyrirtæki fá eina helstu höfn ríkisins vegna erfiðleika sem þau lentu í við að standa undir uppbyggingakostnaði.

Sprunga á vegi í Katmandú. Fjárhagur nepalska ríkisins var bágur …
Sprunga á vegi í Katmandú. Fjárhagur nepalska ríkisins var bágur fyrir skjálftan og ríkið því illa undir það búið að mæta 1.200 milljarða kr. tjóni. AFP

Stærra en Pakistan og Haítí

Siobhan Kennedy hjá HRRP segir rúmlega eigendur rúmlega 820.000 heimila eiga rétt á húsnæðisstyrknum, sem hafi aldrei verið ætlaður að standa að fullu undir endurbyggingu húsanna. „Umfangið er gríðarlegt,“ segir hún. „Þetta er stærra en Pakistan 2005 og Haítí 2010 hvað varðar fjölda þeirra húsa sem þarf að endurreisa. Hvað umfang varðar, er þetta risavaxið.“

Nepalski viðlagasjóðurinn NRA hefur gert úttekt á tæplega milljón heimilum víða um land og er niðurstaðan sú að eigendur um 70% húsanna eiga rétt á styrknum. Þá heimilaði Nepalsbanki lánþegum nýlega að endurgreiða lánin yfir fimm ára tímabil.

Það getur þó verið erfitt að koma fjármunum til þeirra sem á þurfa að halda. „Einn stærsti vandinn er að margir eiga eignir sínar ekki formlega,“ segir Rakesh Maharjan, sem hefur yfirumsjón með úthlutun styrkja í Patan héraði. „Þeir eiga ekki afsal fyrir eignirnar.“

Reisa lítil hús í flýti til að fá styrkinn

Að sögn Maharajan hafa innan við 20% fasteignaeigenda í sveitarfélaginu Latipur í Patan, því fengið greidda þá styrki sem þeir sóttu um.

Framkvæmdatímaramminn sem yfirvöld hafa sett hefur líka verið knappur, ætli menn að fá styrkinn greiddan, og hefur það leitt til ófyrirséðra vandkvæða. Margir hafa nefnilega gripið til þess ráðs að reisa í flýti eins herbergja hús sem henta illa fyrir fjölskyldur.

Fyrir fjölskyldu Santosh Maharjan, 25 ára háskólanema í Patan, er skortur á aðgengi að fé hins vegar stærsti vandinn. „Tvær fjölskyldur búa á mínu heimili, fjölskylda mín og frænda míns,“ sagði hann. „Okkur vantar ennþá tvær milljón rúpíur til að ljúka byggingunni. Faðir minn varð að selja land sitt til að borga fyrir þetta og það dugir samt ekki til.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert