Hundruð handtekin í París

Mótmælendur voru mættir á sinn stað snemma í morgun. Þeir …
Mótmælendur voru mættir á sinn stað snemma í morgun. Þeir klæðast gulum vestum og eru mótmælin kennd við það. AFP

Franska lögreglan handtók í morgun 278 manns í París við upphaf enn einna mótmælanna í landinu sem skipulögð eru af hópi sem nú er kallaður „gulu vestin“.

Aðgangur er bannaður að vinsælum stöðum í París nú í morgun og margar verslanir eru lokaðar. Um 8.000 lögreglumenn eru á götum úti í kjölfar mesta uppþots sem átt hefur sér stað í borginni í áratugi. Á landsvísu eru um 90 þúsund lögreglumenn að störfum í dag.

Tólf brynvarðir bílar eru til taks í París.

Enn virðist allt með kyrrum kjörum í höfuðborginni að því er fram kemur í frétt BBC nú klukkan 8.30. Franska AFP-fréttastofan segir hins vegar að þegar hafi tæplega 300 manns verið handteknir.

Mótmæli „gulu vestanna“ hófust fyrir þremur vikum er fólk flykktist út á götur til að mótmæla hækkunum á eldsneytissköttum. Ríkisstjórnin segir mótmælunum hafa verið rænt af almenningi og nú séu það öfgamenn sem þeim stjórni.

Í síðustu viku voru hundruð manna handtekin í mótmælunum í París. Hópur fólks særðist. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert