John Kelly lætur af störfum í lok árs

Samband Kelly við forsetann er ekki gott.
Samband Kelly við forsetann er ekki gott. AFP

John Kelly, starfsmannastjóri Hvíta hússins, mun láta af störfum í lok árs og arftaki hans verður kynntur innan fárra daga. Þetta staðfesti Bandaríkjaforseti Donald Trump í morgun.

Sögusagnir um að Kelly væri á útleið hafa oft skotið upp kollinum og sérstaklega eftir að samband Kelly við forsetann byrjaði að versna. Talið er að samband þeirra sé orðið það slæmt að þeir talist ekki lengur við.

„Hann hefur verið með mér í næstum tvö ár núna í tveimur stöðum. Ég kann að meta hans framlag,“ sagði Donald Trump við fjölmiðlamenn þar ytra.

Kelly starfaði áður sem ráðuneytisstjóri þjóðaröryggisdeildar en tók við starfi starfsmannastjóra Hvíta hússins af Reince Priebus í júlí á síðasta ári. Hann er almennt talinn hafa staðið sig vel og hafa átt þátt í að bæta aga innan hússins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert