Sló í brýnu við Stórþingið

Norska Stórþingið. Vísa þurfti 23 einstaklingum frá miðborg Óslóar í …
Norska Stórþingið. Vísa þurfti 23 einstaklingum frá miðborg Óslóar í gærkvöldi vegna háværra mótmæla í tilefni alþjóðasamþykktar SÞ um farendur. Ljósmynd/Norden.org

Óeirðalögregla í Ósló hafði uppi mikinn viðbúnað við Stórþingið um kvöldmatarleytið í gær vegna boðaðra mótmæla nýnasistasamtakanna Norrænu andspyrnuhreyfingarinnar, DNM (n. Den nordiske motstandsbevegelse), í tilefni alþjóðasamþykktar Sameinuðu þjóðanna um farendur (e. Global Compact for Migration) en norska ríkisstjórnin er meðal þeirra stjórna sem taka munu þátt í afgreiðslu samþykktarinnar á sérstakri ríkjaráðstefnu í Marrakesh í Marokkó á mánudag.

Bjóst lögregla við miklum styr við þingið og hafði komið upp sérstökum girðingum til að aðskilja liðsmenn DNM annars vegar og vinstri aðgerðasinna fylgjandi mannréttindum og réttindum fólks á flótta hins vegar. Viðsjár eru vaktar með þessum hópum og hefur ítrekað komið til átaka í Ósló síðustu vikur svo sem sunnudaginn 25. nóvember þegar til hópslagsmála kom á Egertorginu milli liðsmanna vinstriöfgahreyfingarinnar Antifascistisk Aksjon og liðsmanna DNM sem leiddi til handtöku þriggja úr röðum fyrrnefnda hópsins.

Komnir til að efna til átaka

„Það var ljóst að þessi hópur [DNM] var kominn til að efna til átaka svo við eltum þá uppi og vísuðum þeim á brott til að tryggja þeirra eigið öryggi,“ sagði Magnus Strande, vettvangsstjóri lögreglunnar í Ósló, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK eftir mótmælin í gærkvöldi en vísa þurfti alls 23 ófriðlegum mótmælendum úr miðborginni og handtaka einn sem lögregla kom engu tauti við.

Dagblaðið VG greinir frá því að fulltrúar fleiri þrýstihópa hafi verið við Stórþingið í gær og nefnir liðsmann samtakanna Þjóðarátak gegn innflytjendum (n. Folkeaksjonen mot innvandring, FMI) sem lögregla sá ástæðu til að biðja að hafa sig á brott.

„Við óttumst að þessi átök muni stigmagnast og búum okkur undir ofbeldiskenndar uppákomur og mótmæli í Ósló,“ sagði Janne Stømner, stjórnandi forvarnahóps lögreglunnar í Ósló, í viðtali við NRK í lok nóvember en harkalega hefur verið tekist á um málefni og meðhöndlun innflytjenda í Noregi síðustu misseri og er þar skemmst að minnast ummæla Tor Mikkel Wara, ráðherra dóms- og innflytjendamála fyrir Framfaraflokkinn Frp., sem tók við af hinni umdeildu Sylvi Listhaug í mars, þegar hann hélt því fram í sjónvarpskappræðu á NRK að Ósló þyldi ekki fleiri innflytjendur.

Deildu þeir Raymond Johansen, oddviti borgarráðs, þar hástöfum og kastaði Wara því meðal annars fram, máli sínu til stuðnings, að norsk stjórnvöld hefðu vísað 20.000 glæpamönnum úr landi síðustu ár, „en þið bjóðið bara fleirum inn!“ skaut hann að Johansen. Síðar um kvöldið þurfti norska dómsmálaráðuneytið að leiðrétta þessa fullyrðingu ráðherrans þar sem réttur fjöldi brottvísaðra var 10.000 en ekki 20.000.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert