„Brexit-svikum“ og fasisma mótmælt

AFP

Hátt í 20 þúsund manns tóku þátt í mótmælum í London í dag. Nokkur þúsund manns söfnuðust saman fyrir framan þinghúsið í London til að mótmæla umdeildum útgöngusamningi Breta úr Evrópusambandinu og notuðu slagorðið „Brexit Betrayal“. Einnig fór fram mótmælaganga gegn fasisma og rasisma. Breska ríkisútvarpið greinir frá.

Mótmælendur skiptust í hópa, þ.e. þeir sem eru með og á móti útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Einnig voru fjölmargir sem mættu í gönguna til að mótmæla hinum umdeilda Tommy Robinsson, stofnanda þjóðernisöfgasamtakanna English Defence League, sem Gerard Batten, leiðtogi Breska sjálfstæðisflokksins, gerði að ráðgjafa sínum nýverið. Fulltrúi þeirra sem stóðu að mótmælum gegn Robinson taldi að um 15.000 manns hefðu mætt í þeirra göngu.

AFP

Þá voru margir sem eru hlynntir Brexit-samkomulaginu en mættu í dag til að mótmæla samningnum sem forsætisráðherra Bretlands, Theresa May, hyggst leggja fyrir þingið til kosningar á þriðjudaginn næstkomandi.

„Brexit Betrayal“-mótmælin voru skipulögð af Breska sjálfstæðisflokknum og leiðtogi hans Gerard Batten ávarpaði mótmælendur. „Ef þingið samþykkir ekki að Bretland gangi út úr Evrópusambandinu mun það leiða til mestu stjórnskipulegrar krísu síðan í enska borgarastríðinu. Árið 1642 fór konungurinn gegn þinginu. Þingið hafði betur og konungurinn missti höfuðið,“ sagði Batten í dag.

Yfirvöld höfðu áhyggjur af mögulegum átökum milli stríðandi fylkinga en mótmælagöngur hópanna fóru friðsamlega fram.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert