Fagna -41 stigs frosti

Jakútía í Síberíu er kaldasta svæði heims. En í hugum íbúanna er kuldinn ekki hindrun heldur það sem heldur í þeim lífinu. Þeir fagna -41°C frostinu og nota það til að sækja sér ís sem þeir svo bræða í neysluvatn sem ekki er hægt að flytja með leiðslum stærstan hluta ársins vegna kuldans. Of dýrt er að grafa eftir vatni í gegnum sífrerann. Til að afla vatns styðjast flestir íbúar þorpanna í Jakútíu við gömlu aðferðina: Íssting og frosin augnhár.

Innokentí Tobonov sökkvir skutli sínum ofan í stóran ísklump á meðan aðstoðarmenn hans ýta honum af frosnu stöðuvatninu og upp á traktorskerru. Tobonov hefur verið í 41 stigs frosti úti á vatninu í klukkustund og rakt loftið hefur fryst augnhár hans. Það er samt engin afsökun til þess að slá slöku við því að hópurinn þarf að flýta sér að safna ísklumpum sem þíða má upp sem drykkjarvatn fyrir nágrannanna, suma hverja aldraða. 

Þorpsbúar í Oy fara út á ísilögð stöðuvötnin til að …
Þorpsbúar í Oy fara út á ísilögð stöðuvötnin til að sækja stóra ísklumpa sem þeir nota svo sem ferskvatnsbirgðir yfir veturinn. Þá frjósa oft augnhárin í kuldanum sem er oft yfir fjörutíu gráður. AFP

Tobonov býr í þorpinu Oy í Jakútíu og situr í sveitarstjórn. Þorpsbúar reiða sig á neysluvatn úr ís mestallt árið. Í aðeins um tvo mánuði er hægt að nálgast drykkjarhæft vatn úr ánni Lenu. Vatnslagnir frjósa svo á veturna. Þegar vorar og ís leysir á ánum er vatnið of gruggugt til neyslu.

Uppspretta drykkjarvatns

Í Jakútíu er fáar vatnshreinsistöðvar að finna og því stóla íbúarnir á ísinn sem uppsprettu drykkjarvatns. Honum er safnað í nóvember og geymdur úti yfir veturinn. Er hlýnar í veðri eru ísklumparnir færðir ofan í kjallara neðanjarðar sem verða náttúrulegir frystiklefar í sífreranum. „Við gerum þetta á hverju ári,“ segir Tobonov. „Þorpið þarf drykkjarvatn.“

Hann segir að lítið heimili þurfi um 10 rúmmetra af ís fyrir hvern vetur.  „Þetta er líkamlega erfið vinna,“ segir Tobonov brosandi. „Erfiðast er þegar ísinn er um 50 sentímetra þykkur, þá er erfitt að draga hann upp úr.“

„Við drekkum og eldum upp úr ísvatninu,“ segir Pelageja Semenova, 74 ára, er Tobonov og aðstoðarmenn hans koma með ísklumpana og setja fyrir utan húsið hjá henni. „Þetta er mjög handhægt. Ísvatnið er hreinna, mér líkar ekki bragðið af kranavatninu í borginni, það er klórlykt af því og stundum er olíulykt af því. Ég sýð það áður en ég drekk það.“

Ísklumpunum ýtt eftir stöðuvatninu og upp á kerru.
Ísklumpunum ýtt eftir stöðuvatninu og upp á kerru. AFP

Vatn af bráðnuðum ís inniheldur mjög lítið magn af kalsíum og magnesíum og ef slíkra efna er ekki aflað með öðrum hætti getur fólk fengið vítamínskort.

Hin dreifbýla Jakútía er oft kölluð land vatnanna og þar má finna eitt stöðuvatn á hverja milljón íbúa. 

Svæðið er auðugt af eðalmálmum, s.s. gulli sem og demöntum og olíu. Arður af auðlindunum skilar sér þó ekki í miklum mæli til íbúanna sem eru flestir hverjir fátækir. 

Umhverfisverndarsinninn Valentina Dimitrijeva segir að stærstur hluti af hagnaðinum fari til rússneska ríkisins. Hún rekur félagssamtökin Eyge sem berjast fyrir umhverfisvernd á svæðinu. 

Auðugt af málmum en fólkið fátækt

Fólk sem býr á þeim svæðum þar sem málmar, demantar og olía eru unnin úr jörðu verða reglulega fyrir mengun vegna námuvinnslunnar. Í ágúst brustu nokkrar stíflur sem námufyrirtækið Alrosa, sem vinnur um þriðjung allra demanta heims úr jörðu, hafði byggt. Það varð til þess að þorpsbúar í nágrenni Viljuj-árinnar gátu ekki nýtt árvatnið til drykkjar. Íbúar í afskekktum þorpum söfnuðust saman og teknar voru myndir af mótmælum þeirra. Á myndum mátti einnig sjá brúnt vatnið sem fólkinu var ætlað að drekka. 

Alrosa sagði að árvatnið væri hæft til drykkjar þrátt fyrir umhverfisslysið sem þeir kenndu miklum rigningum um. Rússneska umhverfisstofnunin segir fjárhagstjón vegna slyssins gríðarlegt en segir Alrosa ekki bera ábyrgð. Slysið hafi orðið vegna náttúruhamfara. 

Heitu vatni skvett upp í loftið við þorpið Oy í …
Heitu vatni skvett upp í loftið við þorpið Oy í Jakútíu. Vatnið verður umsvifalaust að ísnálum. AFP

Sveitarstjórnarmenn í þorpunum í Jakútíu segjast hins vegar sannfærðir um að slysið hafi orðið af mannavöldum og orðið þegar námufyrirtækið var að færa til vinnsluvélar í ánni án leyfis. Talið er að deilur um málið muni standa árum saman en íbúarnir eru valdalitlir og neyðast til að taka því að neysluvatn er af skornum skammti, að sögn Dimitrijevu. „Íbúarnir þjást meira vegna atvika sem þessa vegna þeirra hefðbundna lífsstíls,“ segir hún. „Í Jakútíu er fólk meðvitaðra um umhverfið vegna þess að það áttar sig á því að það þarf að treysta á náttúruna.“

Tobonov segir að jafnvel þótt innviðir á borð við gas til húshitunar komi til þorpsins Oy verði íbúar Jakútíu að kunna að bjarga sér. „Við gleymum ekki hefðum okkar, við kennum unga fólkinu að sækja ís, hvernig á að höggva eldivið og að veiða,“ segir hann. „Að kunna að bjarga sér í erfiðum aðstæðum er nauðsyn í Jakútíu.“

Ísklumpar hoggnir til og komið upp á traktorskerruna.
Ísklumpar hoggnir til og komið upp á traktorskerruna. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert