Glitrandi hafmeyja með dökkt leyndarmál

Ariel-dúkkan er uppseld hjá mörgum netverslunum. Vinnuaðstæður starfsfólksins sem framleiðir ...
Ariel-dúkkan er uppseld hjá mörgum netverslunum. Vinnuaðstæður starfsfólksins sem framleiðir dúkkuna eru allt annað en góðar.

Disney-hafmeyjan Ariel syngur, glitrar og mun efalítið leynast í mörgum jólapökkum þetta árið. Það er þó fátt ævintýralegt við aðstæður verkafólksins sem býr til dúkkuna. Það fær greidda upphæð sem svarar innan við tveimur krónum fyrir dúkkuna, sem kostar að andvirði um 5.500 kr. í breskum leikfangaverslunum.

Breska dagblaðið Guardian fjallar um rannsókn Solidar Suisse-mannréttindasamtakanna og kínversku verkamannavaktarinnar á aðstæðum verkafólks í kínversku leikfangaverksmiðjunni sem býr til leikföng fyrir Disney og Mattel, sem m.a. framleiðir Fisher Price.

Andinn á verkstæði jólasveinanna er líka fjarri starfsaðstæðum verkafólksins. Það er látið vinna ólöglega langan vinnudag við lýjandi aðstæður fyrir lágmarkslaun sem nema um 133 kr. á tímann. Verkafólkið, sem að stærstum hluta eru konur um og yfir miðjan aldur, á hvorki rétt á sumarfríi né veikindafríi og sé einhver veikur lengur en í þrjá daga á sá hinn sami á hættu að vera sektaður eða rekinn.

Yfirvinnutíminn fimm sinnum lengri en löglegt er

Guardian hefur eftir starfsfólki Wah Tung-leikfangaverksmiðjunnar í borginni Heyuan að það hafi unnið allt að 175 yfirvinnutíma á mánuði og ekki fengið nema einn frídag þann mánuðinn. Er slíkt brot á bæði kínverskri vinnulöggjöf, sem og siðareglum leikfangaiðnaðarins. Hámarksyfirvinnutími er 36 stundir á mánuði og er yfirvinnutíminn því fimm sinnum lengri en leyfilegt er.

Grunnlaun starfsmanna á færibandi verksmiðjunnar eru 7,5 kínversk jen, eða 133 kr., sem eru svo lág laun að starfsfólk finnur sig knúið til að vinna yfirvinnu. Um 2.000 starfsmenn vinna í Wah Tung-leikfangaverksmiðjunni sem framleiðir fjölda plastleikfanga og rafmagnstækja, m.a. hina syngjandi og glitrandi Ariel dúkku sem nú er uppseld í mörgum netverslunum. Dúkkan átti líka sinn þátt í að rekstrarhagnaður af neytendavörum Disney var 264 milljónir punda á síðasta ársfjórðungi og tekjur 880 milljónir punda.

Guardian segir allt að 2.400 dúkur hafa rúllað af færibandinu á hverjum degi þegar framleiðslan var í hámarki og eru þær seldar í Bretlandi á 34,99 pund, eða um 5.500 kr. Þegar kostnaður við gerð hverrar dúkku var sundurliðaður kom hins vegar í ljós að starfsmenn fengu sem nemur einu pensi eða einn krónu og 57 aurum fyrir hverja dúkku.

Þegar framleiðslan er í lágmarki nema laun starfsmanna um 2.000 jenum á mánuði, eða tæpum 37.000 kr., og þegar framleiðslan er í hámarki geta mánaðarlaunin með yfirvinnu náð 3.000 jenum. Meðallaun í Kína nema hins vegar 7.665 jenum.

Teiknimyndin um hafmeyjuna Ariel naut mikilla vinsælda og það hefur ...
Teiknimyndin um hafmeyjuna Ariel naut mikilla vinsælda og það hefur einnig varningur tengdur myndinni gert.

Verkafólkið sofandi við færibandið

Rannsakandi á vegum mannréttindasamtakanna kynnti sér störf verkafólksins með því að vinna í mánuð í verksmiðjunni. Segir Guardian verkafólkinu hafa verið gert að mæta til vinnu 10 mínútum áður en vakt þess átti að hefjast og lýstu margir því hversu ósegjanlega þreyttir þeir væru vegna vinnutímans. Birti blaðið m.a. myndir af starfsólki sem svaf við færibandið í stuttum pásum sem því voru veittar.

Lýsir rannsakandinn því m.a. hvernig hún, líkt og aðrir starfsmenn, tók að finna fyrir svima og sjónin fór að verða óskýr eftir að standa allan daginn við færibandið að gera sama hlutinn aftur og aftur.

Þá segir hún flesta kollega sína hafa verið konur komnar yfir 45 ára aldur. Þær hefðu „litla menntun, væru hlýðnar og önnuðust börn og fjölskyldur“. Verksmiðjur réðu þær til starfa af því að þær „væru ólíklegri til að vera til vandræða og auðveldara sé að stjórna þeim“ heldur en körlum.

Engir jólatöfrar í gangi

Simone Wasmann, hjá Solidar Suisse, hvatti leikfangafyrirtækin til að deila hluta ágóða síns með starfsfólki. „Krakkar elska Disney-leikföng en við viljum að foreldrar þeirra átti sig á að það eru engir jólatöfrar í gangi hér. Þessi leikföng eru búin til með ódýru vinnuafli sem vinnur ólöglegan fjölda vinnustunda fyrir nokkrar krónur,“ hefur Guardian eftir Wasmann.

„Fyrir þau [starfsfólkið] er þetta dagur eftir dagur af ömurð. Þau eru ekki að vinna langt fram eftir kvöldi í þessum verksmiðjum af því að þau langi til, heldur af því að það er eina leiðin til að þau fái nóg greitt til að láta enda ná saman.“

Sagði Wasmann Disney vel geta borgað hærra verð til að tryggja að launin hækkuðu. „Það er tímabært að fyrirtækið gefi eitthvað til baka til fólksins sem býr til varningin með því að hækka laun þess, stytta vinnutímann og með því að láta verksmiðjurnar virða lög [um yfirvinnutíma].

Nokkurra króna hækkun á verði dúkkunnar eða nokkrum krónum minna í vasa Disney myndi gera verkafólkinu kleift að fá laun sem það gæti lifað af.“

Princess Sing and Sparkle Ariel-dúkkan er seld í Bretlandi á ...
Princess Sing and Sparkle Ariel-dúkkan er seld í Bretlandi á 34,99 pund, eða um 5.500 kr. Verkafólkið sem framleiðir dúkkuna fær innan við tvær krónur fyrir hverja dúkku.

Brýtur í bága við siðareglur leikfangaframleiðenda

Margir stærstu leikfangaframleiðendurnir, m.a. Disney og Mattel, tilheyra alþjóðasamtökum leiktækjaframleiðenda og hafa samþykkt Ethical Toy Program (ETP), siðareglur samtakanna, sem bæta eiga vinnuaðstæður starfsfólks í leikfangaverksmiðjum.

Wah Tung-verksmiðjan hefur hlotið vottun af ETP og sagði Mark Robertson talsmaður ETP að það sem fram kæmi í rannsókn Solidar Suisse bryti í bága við siðareglurnar varðandi vinnutíma, laun, sumarfrí og orlofsgreiðslur. ETP bregðist fljótt við þessum ábendingum í samstarfi við verksmiðjuna.

Talsmaður Disney sagði fyrirtækið fagna því að aðstæður yrðu rannsakaðar. Fyrirtækið hefði skuldbundið sig til að fylgja ETP-áætluninni, sem væri nýtt meðfram öðrum stöðlum fyrirtækisins við að finna ábyrga birgja.

Mattel sagði engin leikföng fyrirtækisins vera í framleiðslu hjá verksmiðjuni eins og er og að líkt og Disney hafi fyrirtækið skuldbundið sig til að fylgja ETP-áætluninni.

mbl.is
Kaupi notaðar hljómplötur. Sími 696 1909.
Kaupi notaðar hljómplötur. Sími 696 1909....
Til sölu Færeyingur Haffrúin 6032
Gengur í Strandveiðina, Ný vél, vökvagír, skrúfa og mælaborð, nýtt rafkerfi,raf...
Bast-gardínur 3 stærðir
Til sölu 3 vel með farnar bast gardínur (fengust í Ikea) : stærðir 83 cm, 100 cm...