Krónprins í kröppum dansi

Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu.
Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu. AFP

Þrátt fyrir að flest líti út fyrir að krónprins Sádi-Arabíu, Mohammed bin Salman, hafi fyrirskipað morðið á blaðamanninum Jamal Khashoggi virðist ólíklegt að hann verði látinn svara til saka á nokkurn hátt. Krónprinsinn hefur þó ekki bara verið gagnrýndur vegna meintrar aðildar sinnar að morðinu heldur einnig vegna ástandsins í Jemen.

Bandaríska leyniþjónustan hefur komist að þeirri niðurstöðu að Salman hafi fyrirskipað morðið og Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur sagt að Salman hafi mögulega vitað af því. Trump hefur verið gagnrýndur fyrir ummæli sín, meðal annars af öldungadeildarþingmanninum Lindsey Graham sem hefur hvatt hann til að vera harðari í afstöðu sinni gagnvart krónprinsinum. Yfirvöld í Sádi-Arabíu hafa ákært ellefu manns fyrir morðið en þvertaka fyrir að krónprinsinn hafi nokkuð með það að gera.

Jamal Khashoggi, í desember síðastliðnum.
Jamal Khashoggi, í desember síðastliðnum. AFP

Var hrósað fyrir umbætur

Fáir sem ekki bjuggu í Sádi-Arabíu höfðu heyrt getið um Mohammed bin Salman Al Saud áður en faðir hans varð konungur árið 2015. Núna er þessi 33 ára krónprins talinn vera sá sem stjórnar þessu mesta olíuútflutningsríki heimsins í raun og veru, að því er BBC greindi frá.

Vestrænir leiðtogar hrósuðu honum fyrir sumar af þeim umbótum sem hann lét framkvæma í hinu íhaldssama konungsveldi, þar á meðal fyrir að aflétta banni gegn því að konur mættu keyra bíl og fyrir að stuðla að fjölbreyttari efnahag í landinu.

Konungur Sádi-Arabíu.
Konungur Sádi-Arabíu. AFP

Hann hefur aftur á móti líka verið harðlega gagnrýndur fyrir að hafa leitt þjóð sína út í stríð gegn nágrannaríkinu Jemen þar sem gríðarlegur mannlegur harmleikur hefur orðið. Hann hefur verið gagnrýndur vegna deilna Sádi-Arabíu við Katar sem hafa valdið usla í Samstarfsráði ríkja við Persaflóa (GCC), auk þess sem aðgerðum hans gegn þeim sem hafa andstæð sjónarmið hefur fjölgað.

Raddir voru uppi um að hann skyldi látinn víkja sem krónprins eftir að Khashoggi var myrtur í ræðismannsskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbúl af leyniþjónustumönnum frá Sádi-Arabíu. Blaðamaðurinn hafði gagnrýnt stjórnvöld í landinu harðlega, þar á meðal Salman.

Lauk gráðu í lögfræði

Mohammed bin Salman fæddist 31. ágúst 1985, elsti sonur þáverandi prins Sádi-Arabíu, Salman bin Abdul Aziz Al Saud, og þriðju eiginkonu hans, Fahdah bind Falah bin Sultan.

Eftir að hafa lokið BA-gráðu í lögfræði við King Saud-háskólann í höfuðborginni Riyadh, starfað hann fyrir ýmsar ríkisstofnanir. Árið 2009 var hann skipaður sérstakur ráðgjafi föður síns, sem var ríkisstjóri í Riyadh á þessum tíma.

Móðir í Jemen heldur á vannærðu barni sínu í þorpinu ...
Móðir í Jemen heldur á vannærðu barni sínu í þorpinu Al Mutaynah. AFP

Aukin völd

Völd Mohammed bin Salmans tóku að aukast árið 2013 þegar hann var skipaður yfirmaður dómstóla í landinu og var gerður að ráðherra. Árið áður hafði faðir hans verið skipaður krónprins eftir dauða Nayef bin Abdul Aziz. Í janúar 2015 lést konungurinn Abdullah bin Abdul Aziz og Salman tók við krúnunni, 79 ára gamall.

Mohammed bin Salman var skömmu síðar gerður að varnarmálaráðherra og eitt af fyrstu embættisverkum hans var að hefja hernað í Jemen í mars 2015 ásamt öðrum arabaríkjum eftir að uppreisnarmenn húta, sem þeir litu á sem bandamenn Írana, náðu völdum yfir höfuðborginni Sanaa og neyddu forsetann Abdrabbuh Mansour Hadi til að flýja land.

Hernaðurinn hefur borið lítinn árangur síðustu þrjú og hálfa árið. Sádi-Arabar og bandamenn þeirra hafa jafnframt verið sakaðir um mögulega stríðsglæpi í landinu og fyrir að hafa ýtt milljónum Jemena á barm hungursneyðar.

Graf/AFP

Breytingar á konungsdæminu

Í apríl 2015 var Mohammed bin Nayef skipaður krónprins og bin Salman varakrónprins, auk þess sem hann var skipaður í fleiri embætti. Ári síðar afhjúpaði Mohammed bin Salman metnaðarfulla áætlun, Vision 2030, um að gera efnahags- og samfélagslegar breytingar á konungsdæminu og sjá til þess að ríkið væri ekki eins háð olíu. Breyta átti menntakerfinu, auka þátttöku kvenna í atvinnulífinu og fjárfesta í skemmtanaiðnaði til að fjölga störfum á meðal ungs fólks.

Mohammed bin Salman var einnig sagður hafa beitt sér fyrir því að sniðganga Katar, sem Sádi-Arabía, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Bahrain og Egyptaland gerðu í júní 2017 vegna meints stuðnings Katar við hryðjuverkastarfsemi og fyrir að skipta sér að málefnum nágrannaríkja sinna.

Seint í júní þetta ár batt Salman konungur svo enda á vangaveltur með því að skipa son sinn sem krónprins í stað Mohammed bin Nayef. Í september hófst herferð gegn meintum andstæðingum stefnumála krónprinsins. Meira en 20 áhrifamiklir klerkar og gagnrýnendur voru handteknir í aðgerð sem beindist gegn hópi sem var sagður starfa fyrir hönd „erlendra aðila gegn öryggi konungsdæmisins“.

Síðar í mánuðinum var Mohammed bin Salman að mestu þakkað fyrir ákvörðun Salman konungs um að banni gegn kvenkyns ökumönnum yrði aflétt í júní 2018, þrátt fyrir andstöðu á meðal íhaldssamra.

Mohammed bin Salman ásamt Pútín Rússlandsforseta á G20-fundinum sem var ...
Mohammed bin Salman ásamt Pútín Rússlandsforseta á G20-fundinum sem var haldinn á dögunum. AFP

Herferð gegn spillingu

Í október sagði krónprinsinn að „hófstilltari íslam“ væri lykillinn að áformum hans um að nútímavæða Sádi-Arabíu. Á sama tíma tilkynnti hann um 500 milljarða dala fjárfestingu í nýrri borg og viðskiptasvæði, undir nafninu Neom. Í næsta mánuði efndi hann til herferðar gegn spillingu þar sem 381 var handtekinn. Margir sérfræðingar telja að með henni hafi síðasta mótstaðan horfið gagnvart fullum völdum hans yfir konungdæminu. 

Sádi-Arabía átti í deilum við Kanada í ágúst síðastliðnum. Konungsríkið frysti viðskipti sín við Kanada eftir að kanadísk stjórnvöld höfðu krafðist þess að aðgerðasinna yrði sleppt úr haldi. Í viðtali við Bloomberg í október sagði Mohammed bin Salman að aðgerðarsinninn væri á meðal um 1.500 manns sem hefðu verið handteknir síðustu þrjú ár í þágu þjóðaröryggis og fyrir að hafa misnotað tjáningarfrelsi sitt.

„Ég leit ekki á mig sem umbótasinna í Sádi-Arabíu,“ sagði hann. „Ég er krónprins Sádi-Arabíu og ég er að reyna að gera mitt besta í þeirri stöðu.“ Hann bætti við: „Við erum að reyna að losa okkur við ofstæki og hryðjuverk án þess að borgarastyrjöld  brjótist út, án þess að þjóðin hætti að vaxa. Ef greiða þarf lítið gjald vegna þess er það betra heldur en að greiða stóra skuld.“

Donald Trump ásamt Michel Temer, forseta Brasilíu, og Mohammed bin ...
Donald Trump ásamt Michel Temer, forseta Brasilíu, og Mohammed bin Salman á G20-fundinum á dögunum. AFP

Áhyggjur af „stjórnlausum“ krónprins

Í viðtalinu neitaði hann því einnig að vita nokkuð um örlög Jamal Khashoggi, þrátt fyrir fregnir um að einhverjir þeirra sádi-arabísku útsendara sem eru taldir hafa myrt blaðamanninn hafi tengst persónulegum öryggismálum hans og að tveir úr hans innsta hring hafi verið reknir vegna aðildar þeirra að morðinu.

Bob Corker, formaður utanríkisnefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings, er einn þeirra sem hefur gagnrýnt krónprinsinn harðlega. Hann sagði við AFP-fréttastofuna að allir í efri deildinni hafi áhyggjur af hegðun þeirra sem stjórna málum Sádi Arabíu og hafa áhyggjur vegna dauða Khashoggi.  „Fólk hefur áhyggjur af því að krónprinsinn sé stjórnlaus,“ sagði hann. „Fólk hefur áhyggjur af Jemen og þeirri neyð sem þar ríkir.“ Við þetta er að bæta að öld­unga­deild Banda­ríkjaþings samþykkti fyrir skömmu að leggja fram til­lögu um að Banda­rík­in hætti stuðningi við her­sveit­ir Sádi-Ar­aba í Jemen.

Á leið út úr flugvélinni sinni.
Á leið út úr flugvélinni sinni. AFP
mbl.is
Byggingaverktakar - Byggingastjórn - Meistarar - Eignaskiptayfirlýsingar
Byggingaverktakar - Byggingastjórn - Húsasmíðameistari - Eignaskiptayfirlýsingar...
NP ÞJÓNUSTA
NP Þjónusta Sé um liðveislu við bókhaldslausnir o.fl. Hafið samband í síma 831-8...
Innheimmta
Jessenius Faculty of Medicine í Martin Slóvakíu Inntökupróf verður haldið 9. ágú...
Þýsku kerrurnar, ný sending
Fleiri myndir á Bland: https://bland.is/classified/entry.aspx?classifiedId=38248...