Minna rennur um Nílarfljót

Grösugir grænir akrar grípa augað við  Nílarfljót í Egyptalandi. En þessu lykillandbúnaðarsvæði landsins og helstu uppspretta ferskvatns er nú ógnað vegna hlýnandi loftslags. 

Við frjósamar óseyrar Nílar býr um helmingur íbúa Egyptalands. Úr ánni fær þjóðin um 90% af öllu sínu ferskvatni.

En með hækkandi hitastigi og meðfylgjandi þurrkum er vatnsmagnið í Níl að minnka. Hækkandi yfirborð sjávar og aukið saltmagn í jarðvegi eykur svo enn á vandann að sögn sérfræðinga sem og bænda á svæðinu. Allt þetta samanlagt gæti ógnað uppskeru í þessu fjölmennasta landi arabaheimsins. Egyptar eru 98 milljónir talsins. 

„Níl er að skreppa saman. Vatnið nær ekki lengur til okkar,“ segir bóndinn Talaat al-Sisi sem ræktar hveiti, maís og annað korn og hefur gert svo í þrjá áratugi. Við ræktunina hefur hann stólað á vatnið úr Nílarfljóti.

„Við höfum neyðst til að bora eftir grunnvatni. Við erum hætt að rækta hrísgrjón,“ segir hann um stöðuna en hrísgrjón þurfa mjög mikið magn af vatni á vaxtartíma sínum.

Sérfræðingar telja hættu á að árið 2050 hafi ræktarland í Egyptalandi minnkað um 15% vegna aukins saltmagns í jarðvegi. Talið er að tómatauppskeran gæti dregist saman um 50% og kornuppskeran um 11-18%, eftir tegundum.

Norðan óseyranna miklu vinna stjórnvöld í Egyptalandi í samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar að því að þróa vistvæna tækni til vökvunar. Stuðst er við sólarorkuna og er um að ræða aðgerð sem á að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda. 

Tveir bændur sýna blaðamanni AFP sólarrafhlöðurnar við kornakrana. Með þeim geta þeir knúið dælurnar sem dæla vatni yfir akrana og þurfa ekki lengur að eyða miklum peningum í mengandi jarðefnaeldsneyti.

Flestar dælur í Egyptalandi eru knúnar með dísilolíu. Í tilraunaverkefninu þurfa bændurnir aðeins að nota slíkan orkugjafa í neyð. Árangurinn af verkefninu hefur verið mjög góður og sífellt fleiri bændur vilja bætast í hópinn. 

Óseyrarnar við Nílarfljót eru gríðarlega mikilvægar í fæðuöryggi Egyptalands og því er til mikils að vinna að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga. 

mbl.is