Dæmdur sekur um morð á 78 manns

Mikail Popkov játaði morð á 81, en hefur verið dæmdur …
Mikail Popkov játaði morð á 81, en hefur verið dæmdur sekur um morð á 78 manns. Murderpedia.com

Dómstóll í Rússlandi úrskurðaði í dag fyrrverandi rússneskan lögreglumann sekan um morð á 56 manns og fyrir að hafa nauðgað 10 fórnarlamba sinna. Maðurinn, Mikhail Popkov, situr þegar í fangelsi fyrir að hafa myrt 22 konur.

Dómstóll í síberísku borginni Irkutsk úrskurðaði að Popkov væri „sekur um morð á 56 manns á árabilinu 1992-2007“ að því er fram kemur í yfirlýsingu frá saksóknaraembætti héraðsins. Sjálfur hafði Popkov játað sig sekan um 59 morð og eina manndrápstilraun til viðbótar við þau morð sem hann hafði áður játað að hafa framið.

Segir saksóknari Popkov hafa haft „sjúklega þörf fyrir að drepa fólk“. Pop­kov myrti fórn­ar­lömb sín eft­ir að hafa boðið þeim far heim að kvöld­lagi, stund­um á lög­reglu­bíln­um þegar hann var ekki á vakt í heima­borg­inni Ang­arsk, skammt frá Irk­utsk.

Fékk hann lífstíðardóm fyrir glæpi sína, en hann afplánar þegar slíkan dóm fyrir morðin sem áður var búið að dæma hann fyrir. Þá var hann sviptur lögreglulífeyri sínum.

Popkov, sem er 53 ára, hefur þar með verið dæmdur fyrir morð á 78 manns sem gerir hann að afkastamesta raðmorðingja Rússlands svo vitað sé. Meðal annarra þekktra rúss­neskra rað­morðingja má nefna Al­ex­and­er Pichus­hk­in, sem var dæmd­ur fyr­ir 48 morð, og Andrei Chika­ti­lo, sem var dæmd­ur fyr­ir morð á 52. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert