Frestar May Brexit-atkvæðagreiðslunni?

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. BBC hefur eftir heimildamönnum að hún …
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. BBC hefur eftir heimildamönnum að hún muni fresta atkvæðagreiðslu þingsins um útgöngusamninginn. AFP

Theresa May forsætisráðherra Bretlands er nú sögð ætla að fresta atkvæðagreiðslu breska þingsins um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Þetta hefur stjórnmálaritstjóri BBC eftir tveimur heimildamönnum innan ríkisstjórnarinnar.

May ætlar að koma með yfirlýsingu í þinginu klukkan hálffjögur í dag. Í kjölfarið mun þingforseti fulltrúadeildarinnar Andrea Leadsom flytja yfirlýsingu og svo verður lesin yfirlýsing frá ráðherra Brexit-mála um 50. grein Lissabonsáttmálans sem snýr að útgöngu úr ESB.

BBC segir enga staðfestingu enn hafa borist á að atkvæðagreiðslunni, sem fara á fram á morgun, verði frestað. Raunar hefur skrifstofa forsætisráðherrans fullyrt að atkvæðagreiðslan, sem búist er við að May muni tapa, fari fram líkt og til stóð.

Hefur BBC eftir þriðja heimildamanninum innan stjórnarinnar að atkvæðagreiðslan hafi „pottþétt“ verið afturkölluð.

Evr­ópu­dóm­stóll­inn í Lúx­em­borg úr­sk­urðaði í morg­un að Bret­land geti hætt við úr­sögn úr Evr­ópu­sam­band­inu án samþykk­is annarra aðild­ar­ríkja sam­bands­ins, verði það niðurstaðan að samn­ing­ur Breta um út­göngu þeirra úr ESB verði felld­ur í breska þing­inu á morg­un.

May hefur undanfarið reynt að sannfæra þingmenn um að samþykkja útgöngusamningin sem hún hefur náð við Evrópusambandið með því að gefa til kynna að hægt verði að breyta helsta deilumálinu, sem snýr að landamærum Norður-Írlands og Írlands. 

Mina Andreeva, talsmaður framkvæmdastjórnar ESB, sagði Evrópusambandið ekki munu endursemja við Breta. Framkvæmdastjórnin muni hins vegar virða niðurstöðu dómstólsins varðandi 50. ákvæði Lissabonsáttmálans sem snýr að útgöngu úr ESB.

„Eins og Juncker forseti sagði þá er þetta besti samningurinn og sá eini mögulegi. Við munum ekki endursemja og afstaða okkar er óbreytt. Að því er okkur varðar er Bretland að ganga úr Evrópusambandinu 29. mars 2019,“ sagði Andreeva.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert