Klippti hár nemanda og söng þjóðsönginn

Margaret Giezinger.
Margaret Giezinger. Ljósmynd/Lögreglan í Tulare

Margaret Giezinger, kennari í gagnfræðaskólanum University Preparatory í Kaliforníu í Bandaríkjunum, hefur verið ákærð eftir að hafa klippt hár nemanda gegn vilja hans í kennslustund, á meðan hún söng bandaríska þjóðsönginn.

Athæfið náðist á myndband og var því deilt á félagsmiðlinum Reddit. Í kjölfarið missti hún vinnuna í skólanum.

Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Ákæran er í sex liðum og að sögn saksóknara lýsti Giezinger yfir sakleysi. Hún er m.a ákærð fyrir ofbeldi gegn börnum. Fyrir athæfið gæti hún átt von á þriggja og hálfs árs fangelsi, en hún var látin laus gegn 100.000 dollara tryggingu, sem samsvarar um 12 milljónum króna, seint á föstudaginn síðastliðinn.

Í myndbandi sem deilt var á Reddit sést Giezinger, sem kennir vísindi við skólann í Kaliforníu, skipa nemanda að sitja fyrir framan bekkinn og síðan klippa lokka úr hári nemandans á meðan hún syngur bjagaða útgáfu af þjóðsöng Bandaríkjanna.

Lögfræðingur nemandans sagði við fréttastofu CNN að skjólstæðingur hans hafi verið „dauðhræddur“ þar til hann náði að komast undan. Giezinger sést í myndbandinu beina skærunum í loftið og segja: „Næsti!“ rétt áður en hún hótaði að klippa hár annars nemanda.

„Öryggi nemenda í kennslustofum er eitthvað sem við tökum mjög alvarlega,“ segir í yfirlýsingu frá menntamálastofnun Tulare-héraðs. 

Þar segir enn fremur að málið verði skoðað gaumgæfilega og gripið til allra nauðsynlegra aðgerða sem þörf krefji. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert