Mega hlera opinbera starfsmenn

Dómarinn segir að það megi m.a. taka upp samtöl lögreglumanna, …
Dómarinn segir að það megi m.a. taka upp samtöl lögreglumanna, sem eru að störfum, án þeirra vitneskju. AFP

Bandarískur alríkisdómari komst að þeirri niðurstöðu í gær, að Bandaríkjamenn megi taka upp samtöl opinberra starfsmanna, þar á meðal lögreglumanna og stjórnamálamanna, án þeirra vitneskju þegar þeir eru að sinna sínum störfum á vegum hins opinbera. 

Greint er frá þessu á vef Washington Times. 

Þar kemur fram að dómarinn, Patti B. Saris, segi að lög sem sett voru í Massachusetts-ríki, sem banna leynilegar hljóðupptökur, brjóti gegn fyrsta viðauka bandarísku stjórnarskrárinnar hvað varðar störf ríkisstarfsmanna. Dómarinn hafnaði því að þeir þurfi að geta sinnt sínum störfum án þess að hafa áhyggjur af því að verið sé að fylgjast mjög náið með þeim. 

Saris tók hins vegar fram, að þetta þýði ekki að lögreglumenn og aðrir opinberir starfsmenn eigi ekki rétt á friðhelgi einkalífs. Aftur á móti vegi fréttaöflun og dreifing upplýsinga þyngra, samkvæmt fyrsta viðauka stjórnarskrárinnar, heldur en persónulegir hagsmunir opinberra starfsmanna þegar þeir eru að starfa í þágu almennings. 

Dómur Saris féll tveimur einstaklingum í vil, en í frétt Washington Times segir að annar þeirra birti reglulega myndskeið á netinu í beinni útsendingu sem sýnir lögreglumenn að störfum.

Hinn maðurinn, sem heitir James O’Keefe, stýrir Project Veritas sem sérhæfir sig í því að taka upp það þegar opinberum starfsmönnum verður á í messunni og þeir segja eitthvað vanhugsað. 

O’Keefe segir að dómurinn marki tímamót í að setja fordæmi og halda uppi merkjum borgaralegrar fréttamennsku í öllum ríkjum Bandaríkjanna. 

Búast má við að Massachusetts-ríki muni áfrýja dómnum til æðra dómstigs. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert