Nunnur stálu fé fyrir Vegasferð

Nunnurnar eru nýfarnar á eftirlaun og hafa að því er …
Nunnurnar eru nýfarnar á eftirlaun og hafa að því er skólayfirvöld greina frá lýst yfir „djúpri iðrun“ vegna gjörða sinna. AFP

Tvær nunnur sem störfuðu fyrir kaþólskan skóla í Kaliforníu hafa viðurkennt að hafa dregið að sér um 500.000 dollara, eða tæpar 62 milljónir kr., sem þær svo notuðu til að stunda fjárhættuspil í Las Vegas.

BBC segir nunnurnar Mary Kreuper og Lana Chang, sem eru bestu vinkonur, hafa stolið fénu frá kaþólska skólanum St. James, sem er í borginni Torrance í nágrenni Los Angeles. Féð tóku þær af bankareikningi sem skólagjöld og fjárgjafir til skólans voru lögð inn á og  gerðu þær þetta með það fyrir augum að eyða fénu í spilavítunum.

Þær eru nýfarnar á eftirlaun og hafa að því er skólayfirvöld greina frá lýst yfir „djúpri iðrun“ vegna gjörða sinna. Segja forsvarsmenn skólans lögreglu hafa verið tilkynnt um málið, en að ekki verði lögð fram kæra gagnvart nunnunum.

Kreuper var skólastýra St. James í 29 ár, en Chang starfaði þar sem kennari í  20 ár. Talið er þjófnaðurinn hafi átt sér stað yfir að minnsta kosti 10 ára tímabil og að þær hafi notað féð bæði í ferðalög sín og fjárhættuspilið.

Upp komst um peningastuldinn við endurskoðun, en nunnurnar eru sagðar hafa komist upp með þjófnaðinn svo lengi með því að leggja hluta ávísana sem gefnar voru út vegna skólagjalda inn á reikning sem ekki var í eigu skólans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert