Nýjar Brexit-viðræður ekki í boði

Jean-Claude Junker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, segir ekki í boði að …
Jean-Claude Junker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, segir ekki í boði að endursemja um útgöngu Bretlands úr sambandinu. AFP

Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Jean Claude Junker, segir ekkert rými til þess að endursemja um Brexit, en forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi Íhaldsflokksins, Theresa May, fundar í dag með leiðtogum Evrópuríkja eftir að hafa frestað atkvæðagreiðslu í breska þinginu um samning um útgöngu Bretlands úr sambandinu.

Samkvæmt umfjöllun Guardian sagði Junker á fundi Evrópuþingsins í Strassborg í dag að Brexit yrði nú óvænt á dagskrá. „Ég er hissa vegna þess að við vorum komin að samkomulagi,“ sagði hann.

Junker, sem mun funda með May í kvöld, sagði jafnframt að „það er ekkert rými til þess að endursemja, en það er vissulega hægt með vitrænum hætti að fara yfir skilgreiningaratriði og túlkanir án þess að opna á nýjar samningaviðræður. Það verða allir að skilja að viðræður um innihald útgöngusamningsins eru ekki í boði.“

Ljóst varð í síðustu viku að erfitt yrði fyrir May að fá nægilegan stuðning í breska þinginu til þess að Brexit-samningurinn yrði samþykktur, en allir stjórnarandstöðuflokkarnir, samstarfsflokkur Íhaldsflokksins í ríkisstjórn og stór hluti þingmanna Íhaldsflokksins hafa lýst því yfir að þeir hyggjast ekki styðja samningin.

Í gær tilkynnti forsætisráðherrann að hún myndi fresta atkvæðagreiðslu um samninginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert