Árásarmaðurinn ákallaði Allah

Lögreglumaður að störfum í Strassborg. Hundruð lögreglumanna leita enn árásarmannsins.
Lögreglumaður að störfum í Strassborg. Hundruð lögreglumanna leita enn árásarmannsins. AFP

Árásarmaðurinn sem varð þremur að bana og særði 13 á jólamarkaði í Strassborg í gærkvöldi ákallaði Allah er hann hóf skothríðina.

Þetta hefur AFP-fréttaveitan eftir Remy Heitz, frönskum saksóknara í hryðjuverkamálum. Sagði Heitz manninn, sem franskir fjölmiðlar hafa nefnt  Cherif C, hafa hrópað „Allahu Akbar“ eða „Guð er mikill“ er hann hóf að skjóta. Bætti saksóknarinn því næst við að árásin væri enn rannsökuð sem hryðjuverk, þótt ástæður árásarinnar liggi enn ekki fyrir.

Árásarmaðurinn er enn á flótta, en lögregla handtók í Strassborg í gærkvöldi fjóra einstaklinga sem tengjast honum og gistu þeir fangaklefa í nótt.

Sagði Heizt málið vera rannsakað sem hryðjuverk vegna staðarins sem árásin var gerð á, því hvernig hún var framkvæmd, persónulýsingar á árásarmanninum og svo vegna frásagna vitna af að hann hafi ákallað Allah.

Lögregla greindi frá því fyrr í morgun að árásarmaðurinn sé síbrotamaður sem hafi gerst róttækur að íslamskri trú í fangelsi. Hefur hann hlotið 27 dóma í Frakklandi, Þýskalandi og Sviss fyrir margvíslega glæpi, m.a. ofbeldisverk og rán, að því er Heitz greinir frá.

Hann hefur þá verið á lista öryggislögreglu frá 2015 yfir róttæka einstaklinga.

Hefur AFP-fréttastofan eftir saksóknaranum að tveir hafi verið drepnir í árásinni, sá þriðji hafi verið lýstur heiladauður á sjúkrahúsi eftir árásina. 12 til viðbótar hafi þá særst og sex þeirra séu mjög alvarlega sárir.

mbl.is