Fundu handsprengjur á heimili árásarmannsins

Hundruð lögreglumanna leita enn mannsins sem varð þremur að bana og særði þrettán til viðbótar í skotárás í borginni Strassborg í Frakklandi í gærkvöldi.

BBC segir frönsku öryggislögreglunni vera kunnugt um hver maðurinn er, en hann slapp á brott eftir að hafa skipst á skotum við lögreglu og hermenn skammt frá jólamarkaði á Kléber-torginu þar sem árásin átti sér stað. Talið er að hann sé særður. 

Ekki er vitað hverjar ástæður árásarinnar voru.

„Hann lenti tvisvar í átökum við öryggissveitir okkar,“ sagði Christophe Castaner, innanríkisráðherra Frakklands, er hann staðfesti að þrír hefðu farist í árásinni. Þá sagði Castaner landamæraeftirlit hafa verið hert og að öryggisgæsla við jólamarkaði í landinu yrði aukin, auk þess sem viðvörunarstig í landinu hefði verið hækkað.

350 lögreglumenn leita nú árásarmannsins.

Átta þeirra 13 sem særðust í árásinni eru alvarlega sárir, en hinir fimm urðu fyrir minni háttar meiðslum.

Franska lögreglan þekkir til mannsins sem er sagður vera 29 ára Strassborgarbúi og var hann á lista lögreglu yfir einstaklinga sem möguleg hryðjuverkaógn var talinn geta stafað af. Lögregla hefur ekki nefnt hann á nafn, en franskir fjölmiðlar hafa talað um manninn sem Cherif C.

Franska BFM TV sjónvarpsstöðin segir árásarmanninn hafa yfirgefið íbúð sína í Neudorf-hverfinu í Strassborg strax í gærmorgun, en lögregla gerði þá húsleit þar í tengslum við rannsókn á ráni. Handsprengjur fundust þá á heimili mannsins.

Voru íbúar Neudorf hvattir til að halda sig innandyra í gærkvöldi eftir að óstaðfestar fréttir bárust um að lögregla hefði króað manninn af í hverfinu. Það var leigubílsstjóri sem ók manninum á brott frá árásarstaðnum og setti hann úr bílnum í nágrenni lögreglustöðvarinnar í Neudorf sem lét lögreglu vita að hann væri særður á vinstra fæti.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert