Látin fæða barnið ein í fangaklefa

Röð mistaka leiddi til þess að konan fæddi barnið ein …
Röð mistaka leiddi til þess að konan fæddi barnið ein í fangaklefanum. Wikipedia

Áströlsk kona var neydd til að fæða barn ein og lokuð inni í fangaklefa, að því er BBC greinir frá. Atburðurinn átti sér stað í mars á þessu ári, en konan sem nefnd er Amy var þá vistuð í öryggisfangelsi í vesturhluta Ástralíu.

Hún hafði látið starfsfólk fangelsisins vita tveimur tímum fyrir fæðingu að hún héldi fæðinguna vera farna af stað.

Í skýrslu um málið segir að röð mistaka hafi verið gerð í kjölfarið, m.a. með því að ekki var tilkynnt um að hún væri að fæða. Engir erfiðleikar komu hins vegar upp við fæðinguna.

Amy var vistuð í Bandyu- kvennafangelsinu á síðari stigum meðgöngu eftir að hún hafði brotið gegn skilorði sem hún sætti.

Það var svo um hálfsexleytið að kvöldi 11. mars sem hún lét starfsfólk fangelsins vita að hún héldi að fæðingin væri að fara af stað. Hún var þá látin sæta heilsufarsskoðun og sagðist finna fyrir verkjum í maganum, en taldi sig ekki vera með hríðir. Hjúkrunarfræðingi var ekki greint frá ástandi hennar. Amy var því næst gefin parasetamól-tafla og farið með hana aftur í klefa sinn. Klukkutíma síðar leið henni orðið verulega illa og var farin að kalla eftir hjálp.

Hún fæddi barnið svo klukkan 19.40 ein í fangaklefanum. Hjúkrunarkona mætti fimm mínútum fyrr á staðinn, en komst ekki inn í klefann þar sem eini starfsmaðurinn sem hafði lykil var hvergi nálægur.

Hjúkrunarkonan þurfti því að leiðbeina henni í gegnum lúguna á fangaklefanum, að því er fram kemur í skýrslunni.

Amy og barn hennar voru svo flutt á spítala til aðhlynningar síðar um kvöldið.

Í skýrslu um málið segir að illskiljanlegt sé að svo „kvalafullir, niðurlægjandi og hættulegir atburðir geti átt sér stað í áströlsku fangelsi á 21. öldinni“.

mbl.is