„Svolítill skjálfti yfir borginni“

Franskur hermaður í Strassborg í dag en fjöldi lögreglumanna leitar …
Franskur hermaður í Strassborg í dag en fjöldi lögreglumanna leitar árásarmannsins. AFP

„Það var svolítill skjálfti yfir borginni en ég varð ekki mikið var við lögreglu, her eða neitt slíkt,“ segir Smári McCarthy, þingmaður Pírata. Hann kom til Strassborgar í gærkvöldi en þrír eru látnir eftir skotárás í miðborg frönsku borgarinnar skammt frá jólamarkaði í gærkvöldi.

Auk þeirra þriggja sem létust í árásinni eru 13 særðir, átta alvarlega. Samkvæmt erlendum miðlum eru fimm í haldi lögreglu vegna árásarinnar en árásarmannsins er þó enn leitað.

Smári fundar í dag á vegum EES-nefnda í Evrópuþinginu. Hann segir að þingmenn í Evrópuþinginu hafi verið lokaðir þar inni meðan á aðgerðum lögreglu stóð í gær.

Smári átti að vera kominn mun fyrr til Strassborgar en raunin varð. „Fluginu mínu til Frankfurt í gærmorgun seinkaði um marga klukkutíma vegna veðurs og svo lenti ég í umferðarteppu á leiðinni til Strassborgar,“ segir Smári.

Frá aðgerðum lögreglu í grennd við jólamarkaðinn í Strassborg í …
Frá aðgerðum lögreglu í grennd við jólamarkaðinn í Strassborg í gærkvöldi. AFP

Hann hefði mögulega spókað sig um í miðbænum ef hann hefði komið á réttum tíma. Þess í stað var hann að innrita sig á hótel, um hálfan kílómetra frá staðnum þar sem byssumaðurinn lét skotin ríða af, þegar árásin átti sér stað.

„Ég var bara nýkominn til borgarinnar,“ segir Smári en yfirvöld gripu strax til aðgerða. Smári dvelur á hóteli norðanmegin við síki og öllum brúm inn í miðborgina, yfir síkið, var samstundis lokað.

Þrátt fyrir að fjöldi lögreglumanna og hermanna leiti árásarmannsins segir Smári að honum virðist sem allt gangi sinn vanagang í borginni. „Hér er allt rólegt; eins og það getur orðið í evrópskri borg á miðvikudagsmorgni.“

mbl.is