Jafngildir sjálfsvígshvöt að bregðast ekki við

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hvatti ríkin sem taka þátt …
Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hvatti ríkin sem taka þátt í loftslagsráðstefnunni, til að herða aðgerðir sínar í baráttunni gegn hlýnun jarðar. AFP

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, varaði í dag samningamenn á loftslagsfundi Sameinuðu þjóðanna í Póllandi við að það jafngilti sjálfsvígshvöt fyrir plánetuna takist þeim ekki að fallast á auknar aðgerðir gegn loftslagsbreytingum. Sagði Guterrez það vera „ekki aðeins ósiðlegt heldur jafngildi það líka sjálfsvígshvöt“ fyrir jörðina.

BBC segir Guterres hafa snúið aftur til Póllands til að reyna að þrýsta á um að samkomulag náist á ráðstefnunni.  

Hafa nokkur ríki þegar sagst ætla að auka aðgerðir sínar í loftslagsmálum og þá hafa ríki Evrópusambandsins og nokkur önnur ríki sagst vera að bregðast við ákalli vísindamanna.

Telja sumir þeirra sem fylgst hafa með ráðstefnunni að koma Guterres þangað á nýjan leik feli í sér að ekki sé að nást sá árangur sem vonast var eftir. Orð Guterres sjálfs virðast styðja þá skoðun, en hann sagði enn ekki hafa verið tekið á öllum lykilmálum á ráðstefnunni.

„Að eyða þessu tækifæri stofnar í hættu besta tækifæri okkar á að stöðva þessar stjórnlausu loftslagsbreytingar,“ sagði Guterres. „Það væri ekki bara ósiðlegt, það væri sjálfsmorðshvöt.“

Segir BBC það vekja áhyggjur margra þeirra sem fylgjast með ráðstefnunni að einhverjir þeirra ráðherra sem taka þar þátt eigi eftir að ofeinfalda málin. Eru nokkur ríki sögðu standa í vegi fyrir því að samkomulag náist, Sádi-Arabía, Rússland og Kúveit neituðu um helgina að fallast á orðalag í skýrslu loftslagsráðs Sameinuðu þjóðanna (IPCC) um áhrif þess á jörðina hlýni hitastig jarðar um meira en 1,5 gráður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert