„Munum missa Grænland“

Grænlandsjökull. Jason Box, sérfræðingur í jöklarannsóknum og prófessor við jarðfræðistofnun …
Grænlandsjökull. Jason Box, sérfræðingur í jöklarannsóknum og prófessor við jarðfræðistofnun Danmerkur og Grænlands, segir baráttuna um Grænlandsjökul tapaða. mbl.is/RAX

Grænlandsjökull mun hverfa, jafnvel þó að það takist að takmarka losun koltvísýrings og markmiðum Parísarsamningsins verði náð. Eina spurning er bara hversu hratt jökullinn mun bráðna.

Danska ríkisútvarpið DR fjallar á vef sínum um nýja rannsókn Jason Box, sérfræðings í jöklarannsóknum og prófessors við jarðfræðistofnun Danmerkur og Grænlands.

„Við munum missa Grænland,“ segir Box og á þar ekki við landið sjálft, heldur íshelluna sem nær yfir um 75% af Grænlandi, svæði sem er stærra en Svíþjóð, Noregur, Finnland og Þýskaland samanlagt, að því er segir í umfjöllun DR. Íshellu sem geymi í sér svo mikið vatn að yfirborð sjávar mun hækka um sjö metra á heimsvísu bráðni hún.

„Jafnvel þó að við takmörkum losun koltvísýrings nú strax, jafnvel þó að við mætum markmiðum Parísarsamningsins þá munum við samt missa íshelluna á Grænlandi. Það er bara spurning um hversu hratt það mun gerast,“ segir Box.

Grænlandsjökull hefur bráðnað mikið á undanförnum árum eftir því sem …
Grænlandsjökull hefur bráðnað mikið á undanförnum árum eftir því sem hitastig jarðar hefur hækkað. AFP

„Sársaukaþröskuldur“ jökulsins lægri en áður talið

Box er einn meðhöfunda nýrrar vísindagreinar sem dregur upp svarta mynd af framtíð norðurheimskautsins, þar með talið Grænlandsjökuls sem Box hefur heimsótt 20 sinnum frá því í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar.

Losun koltvísýrings er enn að aukast og segir DR að jafnvel þó að verulega væri dregið úr losun strax á morgun, sé kapphlaupið um Grænlandsjökul engu að síður tapað. Ástæða þessa sé að magn koltvísýrings í andrúmslofti sé þegar orðið það mikið að hitastig jarðar muni halda áfram að hækka á næstu árum, óháð því sem gert verði nú. „Sársaukaþröskuldur“ íshellunnar sé lægri en talið hafi verið hingað til.

Áður hefur verið reiknað með að jökullinn taki að hopa með óafturkræfum hætti nái hlýnun jarðar 2,5° gráðum. DR segir nýja útreikninga hins vegar benda til þess að þetta gerist við hlýnun sem sé á bilinu 0,8°-3,2°, líklega þegar hlýnunin sé í kringum 1,6°.

Hlýnunin hefur þegar náð 1,1° þannig að þetta er áhyggjuefni. Ekki hvað síst þegar haft er í huga að hlýnunin á heimskautinu er meiri en annars staðar á jörðinni, segir Sebastian Mernild, prófessor í loftslagsrannsóknum við Nansen-miðstöðina í Bergen.

2° dauðadómur fyrir Grænlandsjökul

Þau ríki sem staðfest hafa Parísarsamningin hafa samþykkt að halda hlýnun jarðar innan við 2°. Tvær gráður eru hins vegar dauðadómur fyrir Grænlandsjökul að sögn Box. Jökullinn sé þegar farinn að hopa. Segir hann Grænlandsjökul missa ár hvert um 250 milljarða tonna af ís. Sé því skipt jafnt milli allra íbúa jarðar jafngildir það því að hver einstaklingur fengi 150 lítra af vatni á dag árið um kring.

Ísjaki sem brotnaði úr Grænlandsjökli ógnaði einu þorpinu við strendur …
Ísjaki sem brotnaði úr Grænlandsjökli ógnaði einu þorpinu við strendur Grænlands í sumar. AFP

Frá níunda áratug síðustu aldar hefur yfirborð sjávar hækkað um 23 millimetra vegna bráðnunar íss frá heimskautinu. Ísinn bráðnar hins vegar nú sífellt hraðar og gerist það hraðar en áður var talið. Segir Box að gera megi ráð fyrir að yfirborð sjávar hafi hækkað að lágmarki einn metra fyrir lok 21. aldarinnar.

Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna fer þessa dagana fram í Katowice í Póllandi og vekur það áhyggj­ur margra þeirra sem fylgj­ast með ráðstefn­unni að nokk­ur ríki þar eru sögðu standa í vegi fyr­ir því að sam­komu­lag ná­ist. Þannig hafi Sádi-Ar­ab­ía, Rúss­land og Kúveit neitað um helg­ina að fall­ast á orðalag í skýrslu lofts­lags­ráðs Sam­einuðu þjóðanna (IPCC) um áhrif þess á jörðina hlýni hita­stig jarðar um meira en um 1,5 gráður. 

Flóttamannavandinn meiri en eftir Sýrlandsstríðið

„Þetta stefnir í ranga átt,“ segir Mernild og Box kveður jarðarbúa þurfa að venja sig við að heimurinn taki kvíðvænlegum breytingum. „Vísindamenn hafa áratugum saman kallað á minni losun koltvísýrings. Það hefur ekki verið brugðist við þeim viðvörunum. Nú erum við á lokametrunum varðandi loftslagsbreytingarnar og stöndum frammi fyrir verulegri áskorun,“ sagði Box.

„Sjáið bara hvaða áhrif flótti milljón Sýrlendinga hefur haft. Það hefur gjörsamlega komið evrópskri pólitík úr jafnvægi. Flóttamannastraumur af völdum loftslagsbreytinga mun verða mun stærra vandamál.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert