Öldungadeildin segir prinsinn ábyrgan fyrir morðinu

Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu (t.v.) með föður sínum Abdulaziz …
Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu (t.v.) með föður sínum Abdulaziz Sádakonungi. AFP

Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti í dag þingsályktunartillögu um að draga til baka hernaðarstuðning Bandaríkjanna við Sádi-Arabíu í stríðinu í Jemen. Þá var samþykkt einróma ályktun um að krónprins Sádi-Arabíu bæri ábyrgð á morðinu á blaðamanninum Jamal Khashoggi.

BBC segir atkvæðagreiðsluna vera sögulega. Þetta sé í fyrsta skipti sem önnur hvor deild þingsins hafi samþykkt að kalla hersveitir Bandaríkjanna heim úr átökum samkvæmt lögum um stríðsvald.

Nokkrir þingmenn Repúblikanaflokksins greiddu atkvæði með demókrötum og var tillagan samþykkt með 56 atkvæðum gegn 41.

Þingsályktunin er þó talin aðallega vera táknræn og ólíklegt þykir að hún leiði til lagasetningar. Er ályktunin ekki bindandi, en í henni er Donald Trump Bandaríkjaforseti hvattur til að kalla heim þær sveitir Bandaríkjahers sem taka þátt í stríðinu í Jemen, utan þær sveitir sem berjast gegn uppreisnarmönnum íslamskra öfgamanna.

Þá samþykkti öldungadeildin einróma ályktun þar sem Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu, er sagður bera ábyrgð á morðinu á Jamal Khashoggi, blaðamanni Washington Post, sem var myrtur á ræðismannsskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbúl í byrjun október. Er þess krafist í ályktuninni að sádi-arabísk stjórnvöld láti þá sem stóðu að morðinu sæta ábyrgð.

Bandaríkin tilkynntu í síðasta mánuði að hætti yrði tímabundið að selja sádi-arabískum yfirvöldum herflugvélar og verði ályktunin sem öldungadeildin samþykkti í dag að lögum, þá verður bannað að hefja aftur sölu á flugvélunum til Sádi-Arabíu.

mbl.is