Sigurinn ekki nógu afgerandi

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, ræðir við fjölmiðla í gær.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, ræðir við fjölmiðla í gær. AFP

Fjölmiðlar í Bretlandi og á meginlandi Evrópu virðast nokkuð samstíga um að þrátt fyrir að Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hafi haft betur í atkvæðagreiðslu um vantraust á hana, sem fram fór í gær á meðal þingmanna breska Íhaldsflokksins, hafi niðurstaðan í besta falli falið í sér varnarsigur fyrir hana og staða hennar sé sem fyrr mjög tæp.

Rúmur þriðjungur þingmanna Íhaldsflokksins lýsti því yfir með atkvæði sínu í gær að hann bæri ekki traust til May, eða 117 af 317. Þar á meðal meirihluti þeirra þingmanna flokksins sem tilheyra ekki forystusveit hans í þinginu. Þetta þykir áfall fyrir forsætisráðherrann. Þrátt fyrir að 200 þingmenn Íhaldsflokksins hafi greitt atkvæði gegn vantraustinu þykir engu að síður ljóst að margir í þeim hópi hafi engu að síður miklar efasemdir um May.

May beðið mikinn skaða

Breska dagblaðið Daily Telegraph segir spurninguna um það hvenær Theresa May hverfi úr stóli leiðtoga Íhaldsflokksins og forsætisráðherra Bretlands eftir sem áður vera knýjandi. Guardian segir að þrátt fyrir að ekki hafi tekist að koma May frá með vantrauststillögunni hafi hún beðið mikinn skaða af henni í ljósi þess hversu margir hafi stutt tillöguna.

AFP

Times segir May hafa rétt marið sigur í atkvæðagreiðslunni í gær en mikið var rætt um það í aðdraganda vantrauststillögunnar að May þyrfti að vinna mjög afgerandi sigur til þess að styrkja stöðu sína. Niðurstaðan þykir ekki þess eðlis. Times segir May „særðan leiðtoga“ og að hún hafi neyðst til þess að segjast hætta fyrir næstu þingkosningar.

May fái að klára málið

Viðskiptablaðið Financial Times segir May hafa lifað af uppreisnina gegn henni en sigurinn sé ekki nógu afgerandi til þess að kæfa andstöðuna gegn henni. Skoska blaðið Scotsman er á svipuðum slóðum. Daily Mirror og og skoska blaðið National segja forsætisráðherrann vera leiðtoga á útleið. Slúðurblaðið Sun segir tímabært fyrir May að segja þetta gott.

Hins vegar leggja blöðin Daily Express og Daily Mail áherslu á að nú þurfi May að fá að klára útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Hún hefur reynt að sannfæra þingmenn Íhaldsflokksins og annarra flokka um að styðja útgöngusamning hennar við sambandið en hann hefur mætt mikilli mótstöðu og var kveikjan að vantrauststillögunni.

May ekki á förum  í bili

Dagblöð á meginlandi Evrópu eru á ekki ólíkum nótum og þau bresku. Hollenska dagblaðið Standaard segir May hafa haft Pyrrosar-sigur, það er sigur sem hafi gengið svo nærri sigurvegaranum að hann sé nánast ósigur. Spænska blaðið La Vanguardia segir May aðeins hafa haft sigur með því að heita því að láta af embætti fyrir næstu þingkosningar.

Franska dagblaðið Le Soir segir May hafa staðið af sér vantraustið en útgöngusamningur hennar sé enn í hættu og framhaldið sveipað óvissu. Spænska dagblaðið País og franska blaðið Figaro segja forsætisráðherrann hafa staðið af sér uppreisn andstæðinga Evrópusambandsins. Írska blaðið Irish Examiner segir May ekki á förum  í bili.

mbl.is