Melania hrapar í vinsældum

Melania Trump forsetafrú Bandaríkjanna. Vinsældir hennar virðast vera mun sveiflukenndari …
Melania Trump forsetafrú Bandaríkjanna. Vinsældir hennar virðast vera mun sveiflukenndari en vinsældir forsetans sem haldast nokkuð fastar við 40%. AFP

Vinsældir Melaniu Trump, forsetafrúar Bandaríkjanna, hafa hrapað töluvert samkvæmt nýlegri könnun CNN. Í október á þessu ári naut forsetafrúin hylli 54% aðspurðra, en nú tveimur mánuðum síðar eru 43% sömu skoðunar.

CNN segir 11% hrun í hylli Trump vekja nokkra athygli, enda hafi hún haldið vinsældum sínum nokkuð vel. Fylgi hennar hefur þó frá upphafi verið sveiflukennt, ólíkt fylgi forsetans sem virðist haldast nokkuð fast við 40%.

Vinsældir forsetafrúarinnar mældust hvað mestar í maí á þessu ári, er þær voru 57%. Minnstar mældust þær hins vegar í janúar 2017, skömmu áður en Trump tók við embætti, en þá mældust vinsældir hennar 35%.

Segir CNN forsetafrúna njóta hvað mests stuðnings hjá íhaldssömum eldri karlmönnum sem kjósi margir hverjir Repúblikanaflokkinn. Konur, sérstaklega yngri og háskólamenntaðar konur eru hins vegar hvað síst sáttar við hana.

Forsetafrúin hefur undanfarnar vikur sést oftar í fylgd með forsetanum en áður og fór m.a. með honum til Argentínu þar sem fundur G20-ríkjanna var haldinn nýlega. Þá hefur Trump einnig tjáð sig í auknum mæli um pólitísk málefni og flutt lengri ræður, m.a. um ópíóðafaraldurinn. Hún sætti þá verulegri gagnrýni eftir að hafa sagt í viðtali við fréttastofu ABC í október að konur sem ásökuðu karlmenn um kynferðislega áreitni yrðu að hafa „áþreifanlegar sannanir“. Þá sætti val hennar á jólaskrauti fyrir Hvíta húsið þetta árið einnig nokkurri gagnrýni, en það er nú prýtt rauðum jólatrjám.

mbl.is