Gulu vestin safnast saman í París

Mótmælendur sjást hér við Champs-Elysees í París í dag.
Mótmælendur sjást hér við Champs-Elysees í París í dag. AFP

Fimmtu helgina í röð hafa mótmælendur, íklæddir gulum vestum, safnast saman í miðborg Parísar, höfuðborg Frakklands. Mörg þúsund lögreglumenn hafa verið kallaðir út komi til átaka og óeirða eins og hefur gerst. 

Mótmælin hófust fyrir fimm vikum, og í fyrstu kom fólk saman til að mótmæla hækkun á eldsneytisverði. Nú ná mótmælin yfir ýmis önnur mál, m.a. umbætur í menntamálum.

AFP

Fram kemur á vef BBC, að tugir hafi verið handteknir í dag. Það eru þó mun færri en var á sama tíma fyrir viku þegar um 500 höfðu verið teknir höndum. 

Þá brutust út átök í miðborginni og lögreglan beitti m.a. táragasi til að dreifa hópi fólks sem reyndi að komast inn á svæði sem lögreglan var búin að girða af. 

Sumir verslunareigendur hafa brugðið á það ráð í dag að hafa lokað í dag á meðan mótmælin standa yfir. Frönsk stjórnvöld höfðu hvatt mótmælendur til að halda sig heima þessa helgina en mótmælendur hafa ekki orðið við þeirri beiðni. 

Jólasveinninn er á staðnum, þó í sínum hefðbundna rauða klæðnaði.
Jólasveinninn er á staðnum, þó í sínum hefðbundna rauða klæðnaði. AFP
mbl.is