Hengdu þig almennilega næst!

Eru andleg veikindi í íþróttum algengari en við höldum?
Eru andleg veikindi í íþróttum algengari en við höldum? Eggert Jóhannesson

„Hengdu þig almennilega næst!" Þau voru ekki uppörvandi skilaboðin sem skoski knattspyrnumaðurinn David Cox fékk frá áhangendum andstæðinga liðs síns, Cowdenbeath, í miðjum kappleik skömmu eftir að hann steig fram fyrir skjöldu og ræddi opinberlega um þunglyndi sitt og tilraunir til sjálfsvígs. 

Að sögn Cox voru það ekki bara áhorfendur sem létu aursletturnar ganga yfir hann heldur einnig leikmenn. Ummæli eins og „passaðu á þér púlsinn, lagsi“ og „eins gott að æsa þig ekki upp, þú ert geðsjúklingur“ heyrðust í hita leiksins. Cox segir þetta gott dæmi um það að fólk líti ekki á andleg veikindi sem sjúkdóm vegna þess að menn beri slík veikindi ekki endilega með sér.  

Hér heima upplýsti Ingólfur Sigurðsson knattspyrnumaður á dögunum að hann hefði ákveðið að leggja skóna á hilluna 25 ára að aldri. Ástæðan er sú að honum þykir fortíðin vinna gegn honum en árið 2014 steig Ingólfur fram og viðurkenndi opinberlega að hann hefði glímt við kvíðaröskun frá unglingsaldri. Hann kveðst í pistli á Twitter hafa lagt mikið á sig til að láta drauminn um að leika knattspyrnu í efstu deild á Íslandi rætast, innan vallar sem utan, og beðið um tækifæri til að sýna sig og sanna en alls staðar komið að luktum dyrum.

Út frá þessu máli má velta fyrir sér hvort knattspyrnumenn sem glímt hafa eða glíma við kvíðaröskun, þunglyndi eða andleg veikindi af öðrum toga sitji almennt ekki við sama borð og aðrir leikmenn hér á landi. Fá þeir ekki sömu tækifæri til að láta ljós sitt skína á vellinum?

Óttast að vera stimplaðir

„Það er erfitt að fullyrða um það, ég hef ekki sett mig inn í mál Ingólfs sérstaklega,“ svarar Viðar Halldórsson, dósent í félagsfræði við Háskóla Íslands en hann hefur mikið fengist við íþróttir í sínu fræðastarfi, spurður hvort það hafi unnið gegn Ingólfi Sigurðssyni að hann hafi tjáð sig opinberlega um veikindi sín.

„Það gæti þó alveg verið. Fyrir liggur til dæmis að samkynhneigðir knattspyrnumenn koma ekki út úr skápnum fyrr en ferillinn er búinn og sama máli gegnir um andleg veikindi; menn hafa forðast að ræða þau af ótta við að verða stimplaðir. Sumir líta á veikindi af þessu tagi sem veikleikamerki og hafi þau leitt til vandamála hjá fyrri félögum getur verið á brattann að sækja. Þarna komum við aftur að þessu með orðsporið – það fylgir mönnum, hvort sem þeim líkar það betur eða verr. Það getur verið erfitt að skilja fortíðina við sig. Sumir leikmenn eru ekki eftirsóttir vegna þess að þeir hafa einhverja sögu á bakinu og standa fyrir vikið ekki jafnfætis öðrum leikmönnum þegar kemur að því að sanna sig og vinna traust samherjanna og þjálfarans. Auðvelt er að tengja þetta við kenningar í félagsfræðinni um fólk sem verður fyrir smánun eða lendir í vandamálum af einhverju tagi.“

Ingólfur átti stóran þátt í að opna umræðuna um andleg veikindi í knattspyrnu hér á landi og í kjölfarið stigu fleiri leikmenn fram, sem rætt hafa um kvíða, þunglyndi og fleira. „Þetta fólk er brautryðjendur,“ segir Viðar, „og allir brautryðjendur fara á móti straumnum og ýta við ríkjandi ástandi. Höggva í stoðirnar. Oftar en ekki vinna þeir sigur að lokum en eins og með allt slíkt starf þá tekur það tíma. Það var gríðarlega mikilvægt að fá þetta fram, leggja spilin á borðið. Umræðan er hins vegar ennþá að slíta barnsskónum hér á landi og ekki komin nægilega langt enda þótt við stöndum betur að vígi en við gerðum fyrir fimm árum. Það er ennþá margt sem við eigum eftir að meðtaka og vinna úr. Það er kvíði og andleg vandamál í íþróttum eins og annars staðar í samfélaginu og löngu tímabært að takast á við þá staðreynd.“

Ákveðin vitundarvakning

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, segir andleg veikindi knattspyrnumanna og íþróttamanna almennt ekkert nýmæli í sögunni, hins vegar hafi orðið ákveðin vitundarvakning á síðustu árum innan íþróttahreyfingarinnar hér á landi. „Hjá KSÍ höfum við reynt að bregðast við þessari þróun, til dæmis með því að bæta umfjöllun um andlega heilsu inn í fræðslustarf okkar; í dag er hún orðin hluti af þjálfaranámskeiðunum hjá okkur. Þjálfarar verða auðvitað ekki sérfræðingar í andlegri heilsu eftir eitt námskeið en vonandi eykur þetta skilning þeirra upp að einhverju marki og kveikir einhvern neista. Þetta er að sjálfsögðu ekkert sérverkefni knattspyrnuhreyfingarinnar heldur snertir það íþróttahreyfinguna í heild og ég veit að ÍSÍ hefur verið að velta þessum málum upp í málstofum hjá sér. Eins og við vitum þá er íþróttahreyfingin þverskurður af samfélaginu og því mikilvægt að um þessi mál sé fjallað á vettvangi hennar.“

Þekkir ekki til fordóma

Þorgrímur Þráinsson rithöfundur hefur tengst íslenskri knattspyrnu órofa böndum um áratuga skeið, fyrst sem leikmaður í efstu deild og með landsliðinu og síðan sem starfsmaður karlalandsliðsins undanfarin tólf ár. Hann þekkir ekki til fordóma í garð andlegra veikinda innan íþróttahreyfingarinnar. „Ég hef ekki orðið var við slíka fordóma. Ég hef verið formaður Vals í þrjú ár og ekkert mál af þessu tagi hefur komið inn á borð til okkar. Ég þekki ekki til þess að leikmönnum hafi verið ýtt í burtu vegna andlegra veikinda og hef ekki trú á að nokkurt íþróttafélag gerði slíkt.“

Honum þykir ótrúlegt að knattspyrnumenn séu að fela djúpstæð andleg vandamál. „Þegar á reynir held ég að það standi alltaf pínulítið utan á mönnum hvort þeir glími við andleg veikindi eður ei, þannig að það kæmi mér á óvart að menn væru að fela svona lagað, svo ég segi alveg eins og er.“

Þorgrímur segir að umræðan um kvíða, þunglyndi og önnur andleg veikindi sé þörf innan íþróttahreyfingarinnar. „Þessi umræða á heima á yfirborðinu og ég veit ekki annað en að ÍSÍ hafi tekist mjög vel á við þetta. Ég veit heldur ekki annað en að allir leikmenn og þjálfarar taki því vel þegar menn opna sig um vandamál sín og tilfinningar. Alveg eins og það á að vera. Menn verða bara sterkari fyrir bragðið. Ingólfur Sigurðsson hefur verið í fararbroddi í þessari umræðu og hefur sýnt mikið hugrekki.“

Hitt er svo annað mál, að dómi Þorgríms, að setji leikmenn markið of hátt, nái ekki að vinna sér sæti í Pepsi-deildarliði eða komast í atvinnumennsku geti það hugsanlega haft áhrif á andlega líðan, jafnvel valdið kvíða. Sumir séu undir mikilli pressu frá vinum eða ættingjum um að komast í landsliðið eða atvinnumennsku og viðkomandi geti þar af leiðandi verið með ranghugmyndir um sjálfan sig. „Ég þekki til leikmanna sem kenndu alltaf öðrum um að hafa ekki náð settu marki, litu of stórt á sig, sögðu þjálfarana slaka, þeir flökkuðu á milli liða og gáfust upp við minnsta mótlæti. Samkeppnin í þessum fótboltaheimi er gríðarleg og það þurfa ansi margir þættir að tvinnast rétt saman til þess að stóri draumurinn verði að veruleika. Sterkir persónuleikar, sem eflast við mótlæti, huga að öllum litlu hlutunum sem tengjast boltanum, standa uppi sem sigurvegarar.“

Nánar er fjallað um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Ingólfur Sigurðsson í leik með Gróttu gegn Fram í Inkasso-deildinni ...
Ingólfur Sigurðsson í leik með Gróttu gegn Fram í Inkasso-deildinni sumarið 2017. Árni Sæberg
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Bloggað um fréttina

Volvo XC V70 til sölu Volvo V70 station
Volvo XC V70 til sölu Volvo V70 station. Árg. 2000. Mjög góður bíll. Vel viðhald...
NP þjónusta
NP Þjónusta Annast liðveislu við bókhaldslausnir o.fl. Hafið samband í síma 831-...