Ringulreið í ungverska þinginu

Mótmæli brutust út í Ungverjalandi í vikunni eftir að þingið þar í landi samþykkti ný lög um vinnuafl sem hafa verið nefnd lög um „þrældóm“ af andstæðingum þeirra. Ringulreið myndaðist í þingsal þegar stjórnarandstæðingar lokuðu fyrir aðgang að stigagöngum og blésu í flautur.

Frétt BBC.

Nýju lögin um vinnuafl heimila vinnuveitendum að krefjast allt að 400 yfirvinnutíma af starfsmönnum á ári og auk þess sem heimilt er að seinka launagreiðslum í þrjú ár. Þessar heimildir sem vinnuveitendur fá í nýju lögunum eru þvert á kröfur almennings sem hefur kallað eftir hækkun lágmarkslauna.

Eldri lög um vinnuafl heimiluðu vinnuveitendum að krefjast að hámarki 250 yfirvinnustunda á ári. Stjórnarandstaða og verkalýðshreyfingin í Ungverjalandi hafa gagnrýnt nýju lögin.

Stjórnvöld í Ungverjalandi með forsætisráðherrann Viktor Orban í fararbroddi segja að nýju lögin muni verða bæði launþegum og vinnuveitendum til hagsbóta. „Við verðum að fjarlægja skrifræðismartröðina í lögunum svo að þeim sem vilja vinna og þéna meira sé það frjáls,“ sagði Viktor Orban áður en nýju lögin voru samþykkt.

Þá var þingið einnig að kjósa um ný lög sem heimila stofnun nýs dómstigs sem myndi vera undir stjórn dómsmálaráðherra Ungverjalands og myndi hafa það hlutverk að leysa úr stjórnsýslumálum. Líklegt þykir að þar falli undir deilumál sem varða meðal annars kosningar og opinbera spillingu og óttast margir að slíkur dómstóll verði ekki sjálfstæður í störfum sínum.

Talið er að allt að 2.000 manns hafi mætt fyrir utan þinghúsið í Búdapest til að mótmæla á miðvikudagskvöld. Hundruð lögreglumanna í fullum skrúða mynduðu skjöld fyrir framan þinghúsið og beittu táragasi gegn mótmælendum sem reyndu að troða sér framhjá þeim.

AFP

Inni í þingsalnum sjálfum myndaðist mikil ringulreið vegna mótmæla stjórnarandstæðinga sem lokuðu fyrir aðgang að stigagöngum, blésu í flautur og létu ófriðlega til að reyna koma í veg fyrir að frumvarp til laganna fengi þinglega meðferð. Forseti þingsins komst ekki í ræðustól og á endanum neyddist hann til þess að setja málið á dagskrá úti á miðju gólfi þingsalsins.

Viktor Orban forsætisráðherra hefur verið gagnrýndur meðal annars fyrir harða stefnu gegn innflytjendum og þjóðernishyggju. Evrópuþingið hefur gripið til aðgerða gegn Ungverjalandi vegna ýmissa mála sem varða meðal annars opinbera spillingu og þrýsting yfirvalda á dómstóla þar í landi.

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert