Pútín: Vill ná stjórn á rappinu

Vladimír Pútín Rússlandsforseti vill að stjórnvöld í landinu nái stjórn ...
Vladimír Pútín Rússlandsforseti vill að stjórnvöld í landinu nái stjórn á rapptónlist. AFP

Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur farið þess á leit við ríkisstjórn landsins að hún taki við „stjórn“ á rapptónlist eftir að fjölda tónleika var aflýst víða um landið. Sagði Pútín „ómögulegt“ að banna rapp og ríkið ætti því að leggja meiri áherslu á að ná stjórn á tónlistarstefnunni.

Þess vegna muni rússneska menningamálaráðuneytið finna bestu leiðina til að „stýra“ tónleikum æskunnar.

BBC segir Pútín hafa tilkynnt þetta eftir að rússneski rapparinn Husky var handtekinn í kjölfar þess að nokkrum tónleikum hans var aflýst. Þannig aflýstu borgaryfirvöld í Krasnodar fyrirhuguðum tónleikum Husky sem áttu að fara fram í þessum mánuði og sökuðu hann um „öfgahyggju“.

Tónlistarmaðurinn, sem heitir í raun Dmitry Kuznetsov, var í kjölfarið úrskurðaður í 12 daga fangelsi fyrir að leika tónlist sína fyrir aðdáendur ofan af húsþaki.

Pútín ræddi rapptónlistina á fundi menningaráðs forsetaskrifstofunnar í Pétursborg og sagði þá að vandann þyrfti að nálgast af „mikilli varfærni“.

„Ég er hins vegar sammála því, að ef það er ómögulegt að stöðva þetta þá þarf að taka þetta yfir og stjórna því á ákveðinn hátt,“ sagði forsetinn.

Þá lýsti Pútín sérstaklega yfir áhyggjum af fíkniefnanotkun ungs fólks. „Rapp og önnur nútímalistform hvíla á þremur stoðum — kynlífi, fíkniefnum og mótmælum,“ sagði hann. „Ég hef mestar áhyggjur af fíkniefnunum. Það er leiðin til niðurrifs þjóðarinnar.“

Kvaðst Pútín þó einnig hafa áhyggjur af slæmu orðbragði í rapptónlist og sagðist hafa rætt við orðfærið við málfræðing. Sá hafi útskýrt fyrir honum að blótsyrði séu hluti tungumálsins og hafi þá af gamansemi líkt tungumálinu við mannslíkamann. „Við erum með margvíslega líkamshluta og það er ekki eins og við séum með þá stöðugt til sýnis,“ sagði Pútín.

Samband rússneskra stjórnvalda við rapptónlist hefur að sögn BBC lengi verið flókið. Þannig ásakaði kvennahljómsveitin Pussy Riot rússnesku leyniþjónustuna fyrr á þessu ári um að eitra fyrir einum liðsmanna sveitarinnar Pyotr Verzilov.

mbl.is
KRISTALS LJÓSAKRÓNUR Útsala er að byrja
Glæsilegar kristalsljósakrónur í falleg heimili. Handskornar kristalsljósakrónu...
www.apartment-eyjasol.is - Reykjavik-
1 and 2 bedroom apartments in Reykjavik. Beds for 4-6 pers. Be welcome eyjasol@...
Gisting við flugbraut..
Lítið sumarhús og kósý í fallegu umhverfi á suðurlandi. Gisting 2 nætur eða meir...
Skemmtibátur til sölu.
Glæsilegur skemmtibátur, Skilsö 33 árg. 2000. Svefnpláss fyrir 4-6. Vél volvo pe...