Ítalir bregðast við kröfum ESB

Matteo Salvini, varaforsætisráðherra og innanríkisráðherra Ítalíu.
Matteo Salvini, varaforsætisráðherra og innanríkisráðherra Ítalíu. AFP

Stjórnvöld á Ítalíu hafa lagt fram fjögurra milljarða evra viðbótarframlag við fjárlagafrumvarp ríkisins til að koma til móts við kröfur framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem hefur hafnað fjárlögunum í tvígang á þeim for­send­um að ekki hafi verið gerðar ásætt­an­leg­ar breyt­ing­ar á þeim.

„Ríkisstjórnin hefur komist að samkomulagi um minni fjárlagahalla,“ segir Matteo Sal­vini, vara­for­sæt­is­ráðherra Ítal­íu. Breytingarnar eru kynntar á síðustu stundu, en fjárlögin verða að vera samþykkt í lok þessa árs. Salvini segist bjartsýnn á að framkvæmdastjórn ESB muni samþykkja fjárlögin með breytingunum.

Ríki Evr­ópu­sam­bands­ins, sem eru hluti af evru­svæðinu, þurfa að leggja fjár­laga­frum­vörp sín fyr­ir fram­kvæmda­stjórn­ina til samþykkt­ar áður en þau eru lögð fram í þjóðþing­um þeirra. Deil­ur hafa staðið yfir á milli rík­is­stjórn­ar Ítal­íu og sam­bands­ins um fjár­laga­frum­varpið en fram­kvæmda­stjórn­in tel­ur að það leiði til auk­inn­ar skulda­söfn­un­ar.

Fjármagnið sem ítalska ríkisstjórnin nýtti til að draga úr fjárlagahallanum er meðal annars fjármagn sem átti að greiða til stjórnmálaflokka, fjárhagsstuðningur við fátæka og fjármagn sem nýta átti til að lækka eftirlaunaaldur.

Ef fjárlagafrumvarpið verður ekki samþykkt af framkvæmdastjórn ESB mega Ítalir búast við því að þurfa að greiða sekt til Evrópusambandsins sem getur numið allt að 0,2% af landsframleiðslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert