Sprengjutilræði í Aþenu

SKAI -byggingin.
SKAI -byggingin. AFP

Sprengja sem sprakk fyrir utan höfuðstöðvar einkarekinnar útvarps- og sjónvarpsstöðvar, Skai, í Aþenu olli talsverðum skemmdum á byggingunni en engin slys urðu á fólki.

Hryðjuverkadeild lögreglunnar er með málið til rannsóknar en talið er að grískir öfgasinnar standi á bak við tilræðið. Fjölmiðlafyrirtæki, opinber fyrirtæki og sendiráð hafa undanfarin ár ítrekað verið skotmörk öfgahópa og anarkista. 

AFP

Ríkisstjórn Grikklands, undir forsæti Alexis Tsipras, hefur fordæmt tilræðið í morgun og segir það árás á lýðræðið. Um var að ræða heimatilbúna sprengju og sprakk hún klukkan 2:30 í nótt að staðartíma. Nokkrum mínútum áður hafi borist nafnlaust símtal á aðra sjónvarpsstöð þar sem varað var við sprengjunni. 

AFP

Lögreglan girti af svæðið í kring en höfuðstöðvar Skai eru í Neo Phaliro-hverfinu. Jafnframt var byggingin rýmd. Skai er í eigu Alafouzos-skipafjölskyldunnar en hún á einnig  Kathimerini, dagblað sem er hægra megin við miðju grísku stjórnmálanna. 

AFP
mbl.is