Vantrauststillaga á Theresu May

Jeremy Corbyn, leiðtogi breska Verkamannaflokksins.
Jeremy Corbyn, leiðtogi breska Verkamannaflokksins. AFP

Jeremy Corbyn, leiðtogi breska Verkamannaflokksins, hyggst leggja fram vantrauststillögu gegn Theresu May, forsætisráðherra Bretlands og leiðtoga Íhaldsflokksins. Tillagan er einkum rökstudd með slælegum vinnubrögðum við að undirbúa landið undir fyrirhugaða útgöngu úr Evrópusambandinu. Tæp vika er síðan May varðist vantrausti úr röðum eigin þingmanna.

Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að Corbyn hafi, þegar hann lagði fram vantrauststillöguna, sakað May um að standa þannig að málum að Bretar stæðu frammi fyrir tveimur óásættanlegum kostum varðandi það hvernig staðið yrði að útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, gölluðum samningi hennar eða engum samningi.

Haft er eftir Mary Creagh, þingmanni Verkamannaflokksins, að greidd verði atkvæði um vantraustið á May annað kvöld. May hefur reynt að afla stuðnings við útgöngusamning sem hún samdi um við Evrópusambandið og fullyrt að aðrir möguleikar væru ekki í boði, en andstaða við hann hefur verið mikil. Ekki síst úr röðum þingmanna Íhaldsflokksins. 

Corbyn hefur kallað eftir því að greidd yrðu atkvæði um útgöngusamning May sem til stóð að gera í síðustu viku. Forsætisráðherrann hætti við að leggja samningin fyrir þingið þar sem ljóst þótti að honum yrði hafnað. Hefur hún sagt að atkvæðagreiðslunni verði frestað þar til um miðjan janúar en Corbyn segir það ekki ásættanlegt. Greiða eigi atkvæði strax.

Verði ekki orðið við kröfunni um atkvæðagreiðslu um vantraust á May hefur Daily Telegraph heimildir fyrir því að Verkamannaflokkurinn ætli að leggja fram vantrauststillögu á alla ríkisstjórnina sem hefði talsvert meiri afleiðingar yrði hún samþykkt en vantraust á forsætisráðherrann enda myndi vantraust á stjórnina leiða til nýrra þingkosninga.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert