Vilja rifta vopnasölusamningi

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada.
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada. AFP

Stjórnvöld í Kanada leita nú leiða til að rifta stórum vopnasamningi sem gerður var við Sádi-Araba árið 2014. Þetta sagði forsætisráðherrann Justin Trudeau í gær. Sádi-Arabar eru  harðlega gagnrýndir í tengslum við morðið á blaðamanninum Jamal Khashoggi sem og ríkulegan þátt sinn í stríðinu í Jemen þar sem þúsundir hafa fallið og heil þjóð er á barmi hungursneyðar. 

Trudeau hafði áður sagt að það yrði „gífurlega erfitt“ að komast frá samningnum, sem undirritaður var í tíð forvera hans, án þess að Kanadamenn þyrftu að borga „óheyrilega háar“ sektir.

En er sönnunargögn hófu að líta dagsins ljós, sem sýna fram á beinan þátt Sáda í morðinu á Khashoggi, ákváðu stjórnvöld í Kanada að setja viðskiptabönn á sautján sádiarabíska borgara sem taldir eru tengjast morðinu.

„Morð á blaðamanni er algjörlega óásættanlegt og þess vegna höfum við frá upphafi krafist svara í málinu,“ sagði Trudeau í sjónvarpsviðtali í gær. Hann sagði að ríkisstjórn sín hefði „reyndar fengið í arf“ frá Stephen Harper, fyrrverandi forsætisráðherra, samning um sölu á hergögnum til Sádi-Arabíu. Verðmæti samningsins er um 15 milljarðar Kanadadollara. Um er að ræða samning um kaup Sáda á herjeppum frá Kanada og sagði Trudeau að nú væri unnið að því að finna leið til að hætta þessum útflutningi.

Svona líta þau út, farartækin sem kanadíska fyrirtækið framleiðir fyrir …
Svona líta þau út, farartækin sem kanadíska fyrirtækið framleiðir fyrir Sádi-Araba.

Í október sagði Trudeau í öðru viðtali að myndu kanadísk stjórnvöld rifta samningnum þyrfti að greiða um einn milljarð Kanadadollara í bætur. Andstæðingar Trudeau á kanadíska þinginu sem og mannréttindasamtök hafa gagnrýnt hann fyrir að rifta ekki samningnum.

Vopnaframleiðandinn General Dynamic Land Systems Canada skrifaði undir samninginn árið 2014 og felur hann í sér afhendingu á herjeppum af gerðinni 928 LAV 6 til Sádi-Arabíu. Um stærsta vopnasölusamning í sögu Kanada er að ræða. Ekki er um neina venjulega jeppa að ræða heldur farartæki sem útbúin eru margvíslegum vopnum. Samningnum var breytt fyrr á þessu ári í kjölfar mótmæla og farartækin eru ekki lengur útbúin fallbyssum sem sagðar voru notaðar gegn óbreyttum borgurum í stríði Sáda í Jemen.

Khashoggi var búsettur í Bandaríkjunum og skrifaði í dagblaðið The Washington Post. Hann hafði gagnrýnt stjórnarhætti Mohammed bin Salman krónprins Sádi-Arabíu. Hann var lokkaður inn í sendiráð Sáda í Istanbúl í Tyrklandi þar sem hann var drepinn og lík hans bútað niður, að því er tyrknesk yfirvöld hafa upplýst.

Í fyrstu neituðu stjórnvöld í Sádi-Arabíu alfarið að eiga þátt í morðinu. Þau viðurkenndu að lokum ábyrgð og sögðu að 21 hefði verið handtekinn. Í skýrslu sem bandaríska leyniþjónustan CIA gerði og lekið var til fjölmiðla var hins vegar líkum leitt að því að sjálfur krónprinsinn hafi átt hlut að máli.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, greindi frá því í október að öllum vopnasölusamningum við Sádi-Araba yrði rift vegna morðsins.

mbl.is