Forsætisráðherra Belgíu segir af sér

Charles Michel, fráfarandi forsætisráðherra Belgíu.
Charles Michel, fráfarandi forsætisráðherra Belgíu. AFP

Charles Michel, forsætisráðherra Belgíu, tilkynnti í belgíska þinginu í dag að hann hygðist láta af embætti sínu, minna en tveimur vikum eftir að ríkisstjórn hans missti meirihluta á þingi eftir að einn samstarfsflokkanna sagði sig frá stjórnarsamstarfinu vegna deilna um innflytjendamál.

Deilurnar snerust nánar tiltekið um samþykkt Sameinuðu þjóðanna um örugga, skipulagða og reglubundna fólksflutninga, sem afgreidd var í Marokkó á dögunum. Flæmski þjóðernisflokkurinn, N-VA, sagði sig frá stjórnarsamstarfinu eftir að Michel lýsti yfir stuðningi við samþykktina.

„Ég hef ákveðið að biðjast lausnar og það er ætlun mín að fara og hitta kónginn undir eins,“ sagði Michel í umræðum á belgíska þinginu í dag, en þá var verið að ræða mögulega vantrauststillögu þingheims á hendur honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert