Hatur magnað upp af samviskulausum stjórnmálamönnum

AFP

Hatur sem magnað er upp af samviskulausum stjórnmálamönnum er ein helsta ástæðan fyrir því að morðum á blaðamönnum fjölgar jafn mikið og raun ber vitni á milli ára. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá samtökunum Blaðamenn án landamæra, Reporters sans frontières. 80 blaðamenn hafa verið drepnir það sem af er ári. 348 blaðamenn eru í fangelsi og 60 til viðbótar eru gíslar. 

Sennilega hefur morðið á sádiarabíska blaðamanninum Jamal Khashoggi vakið mesta athygli. „Ofbeldi gagnvart blaðamönnum hefur náð nýjum hæðum í ár og ástandið nú er tvísýnt,“ segir formaður samtakanna RSF, Christophe Deloire.

Hann segir að hatur í garð blaðamanna fái óhindrað að vaxa og dafna undir stjórn ófyrirleitinna stjórnmálamanna, trúarleiðtoga og kaupsýslumanna. Ekkert er minnst á forseta Bandaríkjanna, Donald Trump, í þessu samhengi en hann hefur ítrekað gagnrýnt blaðamenn og sagt þá óvini fólksins. 

Deloire segir að yfirlýst hatur réttlæti ofbeldi og þar af leiðandi geri það lítið úr gildi blaðamanna og lýðræðisins sjálfs. 

Bandaríkin eru komin í fimmta sæti yfir þau ríki sem eru hættulegust fyrir blaðamenn en það skýrist af árás sem gerð var á ritstjórn Capital Gazette í Maryland í júní. Fimm af ritstjórninni létust í skotárásinni. 

Afganistan er sem fyrr hættulegasta landið fyrir blaðamenn en fimmtán blaðamenn voru drepnir þar í ár, þar á eftir kemur Sýrland með 11 látna blaðamenn og Mexíkó með níu. 

Deloire segir að samfélagsmiðlar magni upp hatur í garð blaðamanna og að ábyrgð þeirra sé mikil. Hann segir að morðum hafi fjölgað, eins að blaðamenn séu fangelsaðir eða teknir til fanga auk þess sem mun fleiri séu þvingaðir til að hverfa en áður. Aldrei áður hafi blaðamenn verið fórnarlömb jafn mikils ofbeldis og nú árið 2018.

Auk morðsins á Khashoggi vakti morðið á slóvenska blaðamanninum Jan Kuciak og unnustu hans mikla athygli og hversu langt óvinir fjölmiðlafrelsis eru reiðubúnir að ganga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert