Vill aðgerðir gegn rafrettum

Bandarískur maður reykir rafrettu.
Bandarískur maður reykir rafrettu. AFP

Landlæknir Bandaríkjanna, Jerome Adams, vill að gripið verði til aðgerða gegn notkun á rafrettum sem hann segir að sé orðin að faraldri á meðal ungs fólks í landinu. Retturnar geti skaðað heilsu þeirra, þar á meðal þróun á heilastarfsemi.

„Við verðum að grípa til umfangsmikilla aðgerða til að vernda börnin okkar frá þessum vörum sem auka hættuna á því að ungt fólk ánetjist nikótíni,“ sagði Adams.

„Rafrettur með aerosol [efninu] eru ekki hættulausar,“ sagði hann og bætti við að „notkun unglinga á nikótíni getur skaðað þróun á heilastarfsemi þeirra, en þróunin heldur áfram til um 25 ára aldurs.“

Þetta er aðeins í annað sinn sem Adams sendir frá sér tilmæli til almennings síðan hann hóf störf sem landlæknir fyrir 16 mánuðum síðan.

Notkun á rafrettum jókst á þessu ári um 78% á meðal menntaskólanemenda í Bandaríkjunum. Einn af hverjum fimm þeirra segist veipa eða nota tæki með rafhlöðum til að reykja nikótínvökva sem oftast eru með ávaxta- eða sælgætisbragði og eru mjög ávandabindandi.

Alls nota yfir 3,6 milljónir bandarískra ungmenna rafrettur.

Landlæknirinn lagði meðal annars til að bannað yrði að veipa innandyra og að fræða skuli börn um hætturnar af notkun rafretta. Hann sagði að rafrettur geti skaðað minnið, athyglina og lærdómsgetuna, auk þess sem þær auki hættuna á frekari fíkn. Einnig sagði hann að efnið aerosol sem er að finna í rafrettum geti valdið ýmiss konar skaða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert