Virðist hafa hætt við vantraustið

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, og Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, og Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins. AFP

Mikil óánægja er á meðal þingmanna breska Verkamannaflokksins í kjölfar misheppnaðrar tilraunar Jeremys Corbyn, leiðtoga flokksins, til þess að lýsa vantrausti á Theresu May, forsætisráðherra Bretlands og leiðtoga Íhaldsflokksins.

Corbyn tilkynnti í gær að hann hefði í hyggju að leggja fram vantrauststillögu á May vegna þess hvernig hún hefði haldið á málum varðandi fyrirhugaða útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Ríkisstjórn May hafnaði þeirri umleitan en þar sem ekki hefði verið um bindandi tillögu að ræða, þar sem hún beindist að forsætisráðherranum einum, þarf samþykki ríkisstjórnarinnar til þess að málið verði tekið fyrir.

Corbyn hafði hótað því að ef ekki yrði orðið við því að taka vantrauststillögu hans á May til afgreiðslu myndi hann leggja fram tillögu um vantraust á alla ríkisstjórnina. May skoraði á Corbyn í gær að láta reyna á það. Slíka tillögu yrði að taka fyrir þar sem hún hefði þau formlegu áhrif, yrði hún samþykkt, að boða þyrfti til nýrra kosninga.

Hins vegar virðist Corbyn hafa fallið frá þeirri hótun að leggja fram vantrauststillögu á ríkisstjórnina í heild ef marka má frétt breska dagblaðsins Daily Telegraph um málið í dag. Þingmenn Verkamannaflokksins höfðu skorað á Corbyn að leggja fram tillögu um vantraust á ríkisstjórnina en ekki eingöngu á May og vilja að staðið verði við hótunina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert