Voru báðar háskólanemar í Noregi

Frá Atlas-fjöllunum þar sem ungu konurnar fundust myrtar í gær.
Frá Atlas-fjöllunum þar sem ungu konurnar fundust myrtar í gær. AFP

Skandinavísku konurnar sem fundust myrtar í Marokkó voru báðar nemendur við háskólann í Telemark i Bø. Norskur lögreglumaður er á leið á staðinn þar sem þær fundust látnar. 

Norska lögreglan hefur staðfest að norska konan, sem var 28 ára gömul, er frá Bryne í Rogaland en danska konan hét Louisa Vesterager Jespersen og var 24 ára gömul. 

Konunar fundust látnar í þorpi í Atlasfjöllunum í El Haouz-héraði, skammt frá ferðamannabænum Imlil. Þær voru á bakpokaferðalagi um Marokkó og norskur lögreglumaður sem starfar í sendiráði Noregs í Rabat í Marokkó er á leið til Marrakesh þangað sem lík þeirra voru flutt eftir að þau fundust í gær. Íbúar í bænum eru í áfalli en enginn hefur verið handtekinn grunaður um að hafa drepið konurnar.

Að sögn upplýsingafulltrúa norsku rannsóknarlögreglunnar Kripos, Jonas Fabritius Christoffersen, verður málið rannsakað af yfirvöldum í Marokkó og í kjölfar niðurstöðu rannsóknarinnar verður tekin ákvörðun um hvort norska lögreglan muni einnig rannsaka morðin. Þetta kemur fram á vef NRK.

VG greinir frá því í morgun að seint í gærkvöldi hafi móðir norsku konunnar greint frá því á Facebook að dóttir hennar væri látin. Áfallateymi lögreglunnar er í sambandi við fjölskyldu konunnar, samkvæmt frétt VG.

Lík kvennanna báru merki um áverka eftir eggvopn á hálsi, samkvæmt fréttum fjölmiðla í gær og er andlát þeirra rannsakað sem morð. 

Ferðamannabærinn Imlil er yfirleitt upphafspunktur gönguferða á Toukbal, sem er hæsta fjall Norður-Afríku. 

Móðir Louisu, Helle Jespersen, segir í samtali við BT að hún hafi verið að horfa á jóladagatalið í sjónvarpinu í gær ásamt þremur börnum sínum þegar norskur kennari Louisu hafði samband við son hennar til að spyrjast fyrir um Louisu í kjölfar fregna um að tvær ungar konur frá Noregi og Danmörku hefðu fundist myrtar í Marokkó, en Louisa ætlaði að vera í Marokkó um jólin ásamt vinkonu sinni. 

Tíu mínútum síðar hringdi dyrabjallan og fyrir utan stóðu tveir lögreglumenn og segir Jespersen í viðtalinu við BT að þá hafi hún vitað hvað hefði gerst. 

Að sögn móður Louisu Vesterager Jespersen var hún ævintýragjörn og það hafi meðal annars verið ástæðan fyrir því að hún ákvað að halda jól í Marokkó gegn vilja fjölskyldu sinnar. 

Frétt BT

Frétt VG

Frétt NRK

Frétt Politiken

Frétt Aftenposten

mbl.is