Facebook aftur í klandri

Þegar Mark Zuckerberg, forstjóri Facebook, mætti fyrir þingnefnd Bandaríkjaþings í …
Þegar Mark Zuckerberg, forstjóri Facebook, mætti fyrir þingnefnd Bandaríkjaþings í apríl, fullyrti hann að notendur samfélagsmiðilsins hefðu fulla stjórn á upplýsingum um sig. AFP

Facebook hefur í fleiri ár veitt stærstu tæknifyrirtækjum heims aðgang að viðkvæmum persónuupplýsingum notenda samfélagsmiðilsins, þvert á það sem talsmenn Facebook hafa haldið fram. Meðal annars hefur Netflix og Spotify fengið aðgang að einkaskilaboðum notenda og getur Amazon séð alla vini skráðra notenda ásamt netföngum.

Sérstakar undanþágur frá persónuverndarskilmálum hafa verið veittar stórum fyrirtækjum er stunda viðskipti við Facebook og eru þær útlistaðar í skjölum sem telja hundruðum blaðsíðna og New York Times hefur undir höndum.

Ekki er ljóst hvernig yfirvöld í Bandaríkjunum munu bregðast við, en í gær var tilkynnt um lögsókn á hendur Facebook vegna Cambridge Analytica.

Skjölin eru frá 2017 og urðu til við úrvinnslu gagna sem fyrirtækið býr yfir vegna viðskipta við samstarfsaðila. Í þeim er útlistað með hvaða hætti Facebook stundar viðskipti með persónuupplýsingar skráðra notenda.

Fengu að lesa einkasamtöl

Vonir voru um að samstarf við önnur tæknifyrirtæki myndi tryggja áframhaldandi vöxt í fjölda notenda og þar með auka auglýsingatekjur og fengu samstarfsaðilar sérhannaðar leiðir til þess að laða að fleiri viðskiptavinum.

Notendur Facebook fengu tækifæri til þess að tengjast fleiri vinum þvert á stýrikerfi, búnað og vefsíður, en á sama tíma fékk Facebook ótakmarkað vald yfir persónuupplýsingum 2,2 milljörðum manna.

Leitarvél Microsoft þekkt undir heitinu Bing, fékk ótakmarkaðan aðgang að nöfnum skráðra vina allra Facebook notenda án samþykkis. Netflix og Spotify var veitt heimild til þess að lesa öll einkaskilaboð sem notendur samfélagsmiðilsins sendu hvort öðru.

Amazon, Sony og Microsoft fékk aðgang að nöfnum allra vina notenda og netföng þeirra. Yahoo fékk heimild til þess að skoða stöðufærslur notenda og vina þeirra þar til í sumar, þrátt fyrir að Facebook hafi lýst því yfir fyrir fleiri árum að slíkar heimildir væru ekki seldar.

150 fyrirtæki

Allt frá því að upp komst um gagnasöfnun ráðgjafafyrirtækisins Cambridge Analytica og hvernig gögnunum var beitt til þess auka árangur kosningabaráttu Donalds Trumps til forseta Bandaríkjanna árið 2016, hefur Mark Zuckerberg, stofnandi og forstjóri Facebook, heitið því að gera úrbætur og fullyrt að notendur samfélagsmiðilsins hafi fulla stjórn á sínum upplýsingum.

Skjölin sem New York Times hefur undir höndum ásamt viðtöl við um 50 fyrrverandi starfsmenn Facebook og samstarfsaðilum þeirra, sýna að fyrirtækið hefur veitt völdum fyrirtækjum aðgengi að persónuupplýsingum notenda.

Einnig er sett spurningamerki um hvort fyrirtækið hafi brotið gegn skipun neytendastofu Bandaríkjanna, Federal Trade Commission, frá 2011 sem kveður á um að Facebook sé óheimilt að afhenda persónuupplýsingar notenda nema hafa fyrir því samþykki þeirra. Um 150 fyrirtæki hafa fengið afhentar upplýsingar um fleiri hundruð milljóna notenda samfélagsmiðilsins

Ýmsar spurningar hafa komið upp vegna hugsanlegar brota á neytendaverndarákvæðum laga í Bandaríkjunum, sérstaklega vegna heimilda sem Facebook veitir hinum svokölluðu samstarfsaðilum fyrirtækisins. Talsmenn Facebook vilja meina að samstarfssamningar fyrirtækisins séu undanskilin skilmálum neytendastofu Bandaríkjanna.

Í umfjöllun NYT í sumar kom fram að fyrirtækið stundaði ítarlegt samstarf og afhendingu upplýsinga til framleiðenda tækjabúnaðar á borð við Huawei, BlackBerry og fleiri.

Talsmaður Yandex, Fyodor Yezhov, kynnti útgáfu Yandex-símans 5. desember.
Talsmaður Yandex, Fyodor Yezhov, kynnti útgáfu Yandex-símans 5. desember. AFP

Síðar hefur verið upplýst að fyrirtækið sé einnig í samstarfi við stórar leitarvélar á borð við Yahoo. Meðal leitarvéla sem fyrirtækið hefur starfað með er rússneska fyrirtækið Yandex sem hefur verið sakað af úkraínskum yfirvöldum að koma upplýsingum um ríkisborgara þeirra til rússneskra yfirvalda.

Talsmaður Yandex vísar ásökununum á bug og segir við NYT að fyrirtækið hafi ekki vitað af aðgengi sínu að upplýsingum af Facebook og að það væri með öllu óskiljanlegt hvers vegna Facebook hefði leyft þessu að viðgangast.

Milljarða sekt

Saksóknari í Washington, Karl Racine, lagði fram í gær kæru á hendur Facebook fyrir að veita Cambridge Analytica aðgengi að upplýsingum notenda án samþykki þeirra. Voru upplýsingarnar safnaðar með því að notendur nýttu sér spurninga forrit sem safnaði upplýsingum um búsetu, trú og fleiri ásamt því að kortleggja hvað notandinn hafði líkað við.

Á sama tíma var upplýsingum um vini notendans safnað þrátt fyrir að þessir vinir hefðu aldrei nýtt sér umrætt forrit. Í heild komst Cambridge Analytica yfir upplýsingar yfir 87 milljónir einstaklinga.

Kæran á hendur Facebook er á grundvelli neytendalaga Washington-borgar segir í umfjöllun CNBC. Haft er eftir Racine að hámark sekta vegna brota gegn neytendalögum eru fimm þúsund bandaríkjadalir fyrir hvert brot, eða tæplega 600 þúsund íslenskar krónur.

Saksóknarinn sagði að kæran tilgreindi 852 íbúa Washington sem voru búnir að hala niður forritið sem um ræðir. Ef söfnun er tengist hverjum þessara einstaklinga telst til brots getur Facebook hlotið sekt upp á rúmlega 4 milljónir bandaríkjadali að jafnvirði 510 milljónir króna.

Málið flækist hins vegar þegar litið er til þess að Cambridge Anatlytica safnaði einnig upplýsingar um vini þessa einstaklinga sem eru um 340 þúsund talsins og getur því sektin hljóðað upp á 1,7 milljarða bandaríkjadali, ríflega 200 milljarða íslenskra króna.

Hrun hlutabréfa

Í kjölfar yfirlýsinga saksóknara í Washington í gær féll gengi hlutabréfa í Facebook um 7,25%. Reuters segir fjárfesta óttast keðjuverkandi áhrif lögsóknarinnar og að verulegur fjárhagslegur kostnaður verða vegna þessa.

Hlutabréf samfélagsmiðlarisans hafa fallið um 24% á þessu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert