Frávísunarkröfu Weinsteins hafnað

Harvey Weinstein.
Harvey Weinstein. AFP

Dómari í New York í Bandaríkjunum hafnaði í dag kröfum lögmanns bandaríska kvikmyndaframleiðandans Harveys Weinstein um að vísað yrði frá dómi ákæru vegna meints kynferðisofbeldis af hans hálfu og sagði að aðalmeðferð málsins héldi áfram í mars.

„Við erum að sjálfsögðu vonsviknir með að ákærunni hafi ekki verið vísað frá í dag,“ er haft eftir lögmanni Weinsteins, Ben Brafman í frétt AFP. „Ég er enn þeirrar skoðunar að að ákærunni eigi að vísa frá dómi. Þetta snýst ekki um metoo-hreyfinguna.“ Málið heldur áfram 7. mars.

Weinstein stendur frammi fyrir fimm ákæruliðum ó dómsmálinu vegna meintrar nauðgunar í mars 2013 og að hafa neytt konu til munnmaka árið 2006. Ef Weinstein verður sakfelldur gæti hann átt yfir höfði sér lífstíðarfangelsi en hann er 66 ára að aldri.

Weinstein hefur verið sakaður um að hafa beitt yfir 80 konur kynferðislegu ofbeldi.

mbl.is