Vara við hernaðarlegu tómarúmi

Bandarískt herlið í sýrlenska bænum Al-Darbasiyah, sem er á valdi …
Bandarískt herlið í sýrlenska bænum Al-Darbasiyah, sem er á valdi Kúrda. AFP

Hernaðarbandalag í Sýrlandsstríðinu undir stjórn Kúrda segir þá ákvörðun Donald Trump Bandaríkjaforseta að draga herlið Bandaríkjanna frá Sýrlandi gera vígasveitum Ríkis íslams kleift að öðlast styrk á ný.

Í yfirlýsingu frá Sýrlensku lýðræðissveitunum (SDF), sem náðu með aðstoð Bandaríkjahers m.a. borginni Raqqa úr höndum Ríkis íslams, er varað við því tómarúmi sem myndist er Bandaríkjaher hverfi á braut frá Sýrlandi. SDF segja að þetta hernaðarlega tómarúm geti vígasamtökin nýtt sér til þess að byggja upp styrk sinn að nýju.

Nýlegt mat bandarískrar rannsóknarmiðstöðvar í alþjóðamálum, CSIS, er að þrátt fyrir að Ríki íslams ráði ekki lengur yfir miklu landsvæði séu enn á milli 25-30.000 vígamenn á þeirra vegum í Sýrlandi og Írak samanlagt, þar af 10-15.000 innan landamæra Sýrlands.

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði á Twitter í gær búið væri að sigra Ríki íslams í Sýr­landi og að það hafi verið eina ástæðan fyr­ir veru herliðsins þar.

Sú fullyrðing hans hefur hins vegar mætt verulegri gagnrýni bæði hjá þingmönnum á bandaríska þinginu og hjá öðrum þjóðum hernaðarbandalagsins, sem talið er hafi átt stóran þátt í því að hrekja Ríki íslams frá helstu höfuðvígjum sínum í Sýrlandi.

Um 2.000 manna bandarískt herlið hefur haft bækistöðvar í héruðum Kúrda í norðurhluta Sýrlands.

Í yfirlýsingu SDF er varað því „neikvæðum afleiðingum“ þess að Bandaríkjaher dragi sig til baka. Ríki íslams gæti með því fengið færi á að endurnýja sinn fyrri styrk og slíkt hefði „hættulegar afleiðingar“ í för með sér og myndaði bæði „pólitískt og hernaðarlegt tómarúm“.  Íbúar yrðu þá fastir milli fjandsamlegra fylkinga. 

Á meðal þeirra sem standa innan SDF eru varnarsveitir Kúrda (YPG) sem Tyrkir álíta sem hryðjuverkasamtök en hafa leikið lykilhlutverk, við hlið Bandaríkjamanna, í baráttunni gegn Ríki íslams.

BBC segir nágrannaríkið Tyrkland hafa greint frá því að ríkið sé tilbúið að hefja hernaðaraðgerðir gegn YPG, sem eru einn helsti hernaðararmur SDF og sem Tyrkir líta á sem hryðjuverkasamtök. Og það má vel vera að svo verði.

Reuters greinir frá því að í dag hafi tyrkneski ríkisfjölmiðilinn Anadolu það eftir Hulusi Akar varnarmálaráðherra Tyrkja að Kúrdar sem barist hafa austan við Efrates-fljót eigi ekki von á góðu. Tyrkir hafa veigrað sér við því að láta til skarar skríða gegn YPG á því svæði þar sem Bandaríkjaher hefur verið með viðveru og stuðningur bandarískra stjórnvalda við hópinn hefur átt sinn þátt í stirðum samskiptum tyrkneskra og bandarískra ráðamanna upp á síðkastið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert