Hátíðarhöld snerust í andhverfu sína

„Við sem þarna vorum gestkomandi sáum frá fyrstu hendi hversu …
„Við sem þarna vorum gestkomandi sáum frá fyrstu hendi hversu miklu afli ísraelski herinn getur beitt.“ Ljósmynd/Rauði krossinn

Hátíðarhöld í tilefni 50 ára afmælis Rauða hálfmánans í Palestínu, sem haldin voru í Ramallah 13. desember, snerust upp í andhverfu sína þegar Ísraelsher skaut palestínskt ungmenni til bana við mótmæli í nágrenni höfuðstöðva Rauða hálfmánans.

Í kjölfarið mögnuðust mótmæli þar sem Palestínumenn mótmæla hernámi Ísraels og fljótlega hafði mikill fjöldi ísraelskra hermanna tekið stjórn á miðborg Ramallah. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rauða krossinum á Íslandi.

„Við sem þarna vorum gestkomandi sáum frá fyrstu hendi hversu miklu afli ísraelski herinn getur beitt og á mjög skömmum tíma. Áður en við vissum af var mikið herlið mætt allt í kringum skrifstofur Rauða hálfmánans, læti, brennandi dekk, skothvellir og táragas var allt um kring og í raun alla nóttina,“ segir Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi, sem ásamt Sveini Kristinssyni var stödd í Ramallah í tilefni afmælis Rauða hálfmánans.

Mótmælin skammt frá höfuðstöðvum Rauða hálfmánans.
Mótmælin skammt frá höfuðstöðvum Rauða hálfmánans. Ljósmynd/Rauði krossinn

Við höfuðstöðvar Rauða hálfmánans eru flóttamannabúðir sem breyttust í hálfgert átakasvæði og móttökunni, þar sem hátíðarhöldin áttu að fara fram, var breytt í fjöldahjálparmiðstöð.

Ísraelsmenn hafa verið gagnrýndir fyrir að virða ekki alþjóðleg mannúðarlög sem gilda í vopnuðum átökum og þegar um hernám er að ræða, en þau kveða meðal annars á um bann við hóprefsingum.

„Morguninn eftir mestu lætin urðum við vitni af því þegar ísraelski herinn jafnaði við jörðu heimili fjölskyldu palestínsks ungmennis sem er sakaður um að hafa fyrr á árinu orðið valdur að dauða ísraelsks hermanns. Þetta var mjög sláandi atburðarrás og ég ætlaði varna að trúa því þegar það heyrðust háar drunur og var þá húsið rústir einar. Þetta var mjög óhugnanleg sjón að sjá,“ segir Kristín.

Komust á flugvöllinn eftir krókaleiðum

Fulltrúar Rauða krossins á Íslandi og fleiri landsfélaga komust eftir krókaleiðum á flugvöll morguninn eftir en búið var að loka öllum vegatálmum í kringum borgina og koma upp nýjum vegatálmum. Ofangreind atburðarás er hluti af víðtæku ofbeldi og spennu á hernumdu svæðunum þar sem mikill fjöldi Palestínumanna hefur látið lífið, særst eða verið handteknir auk þess sem Ísraelskir hermenn og ríkisborgarar hafa einnig særst eða jafnvel látið lífið.

Frá 9. desember hafa þrír Ísraelar og fimm Palestínumenn látið lífið í árásum, átökum og við handtöku. Yfir 400 Palestínumenn eru særðir og í að minnsta tólf Ísraelar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert