Rannsaka hvort asbest sé í barnapúðrinu

Barnapúðrið frá Johnson & Johnson í hillu verslunar í Alhambra …
Barnapúðrið frá Johnson & Johnson í hillu verslunar í Alhambra í Kaliforníu. Yfirvöld í Bangladess ætla nú að rannsaka hvort asbest finnist í barnapúðrinu. AFP

Yfirvöld í Bangladess ætla á næstu dögum að safna sýnum og gera prófanir á barnapúðri hreinlætisvöruframleiðandans Johnson & Johnson til að rannsaka hvort þar leynist asbestagnir.

Reuters-fréttastofan greindi frá því fyrir skemmstu að forsvarsmönnum Johnson & Johnson hefði áratugum saman verið kunnugt um að asbest greindist stundum í talkúmi sem notað er í barnapúðrið. Á fyrirtækið nú yfir höfði sér málsóknir frá þúsundum manna sem telja barnapúðrið hafa valdið þeim krabbameini, en asbest er m.a þekkt fyrir að valda fleiðrukrabbameini.

Reutes hefur eftir BSTI, stofnun sem framkvæmir slíkar prófanir og sem heyrir undir iðnaðarráðuneyti Bangladess, að prófanirnar verði annaðhvort gerðar innanlands eða utan.

„Við tökum þetta mál alvarlega og munum innan nokkurra daga taka sýni af markaðinum,“ hefur Retuers eftir S.M. Isahaque Ali, forstjóra BSTI. Ekki standi hins vegar til að banna barnapúðrið nema asbest greinist í því.

Forsvarsmenn Johnson & Johnson hafa hafnað fréttum af asbesti í talkúmpúðrinu sem „einhliða, röngum og til þess gerðum að valda æsingi“. Sagði í yfirlýsingu frá fyrirtækinu í gær að sýni væru reglulega tekin úr talkúminu bæði af birgjum þeirra og óháðum rannsóknarstofum til að tryggja að það sé laust við asbest.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert