Björguðu þriggja daga gömlu barni

Barnið er þriggja daga gamalt og fæddist á strönd í …
Barnið er þriggja daga gamalt og fæddist á strönd í Líbíu. Þaðan fór það um borð í björgunarskip ásamt móður sinni og 300 öðrum flóttamönnum. AFP

Yfirvöld á Möltu fluttu nýbakaða móður og barn hennar með flugi frá spænsku björgunarskipi á Miðjarðarhafi í dag. Barnið er þriggja daga gamalt og fæddist á strönd í Líbýu. Barnið var í lífshættu og var það flutt, ásamt móðurinni, á spítala á Möltu, að sögn góðgerðarsamtakanna Proactiva.

Maltnesk yfirvöld hafna ásökunum þess efnis að þau hafi neitað að útvega um 300 flóttamönnum mat sem eru um borð í skipinu. Segja þau að áhöfn skipsins hefði tjáð þeim að nægar vistir væru um borð fyrir næstu tvo daga.

Þyrla á vegum maltneskra yfirvalda sótti móðurina og barnið og …
Þyrla á vegum maltneskra yfirvalda sótti móðurina og barnið og flutti á spítala í Möltu. AFP

Flóttamönnunum var bjargað undan strönd Líbíu á föstudag og í færslu Proactiva á Instagram var fullyrt að 311 flóttamenn, þar á meðal ófrískar konur, börn og ungbörn, að yfirvöld á Möltu hafi neitað að færa þeim mat. „Þetta er ekki í anda jólanna,“ segir meðal annars í færslunni.

Á sama tíma gerði Matteo Salvini, innanríkisráðherra Ítalía, áhöfn skipsins ljóst að allar hafnir á Ítalíu væru lokaðar og að flóttamennirnir væru ekki velkomnir til Ítalíu. Þá birti hann mynd af hádegisverðinum sínum á Twitter sem var ætluð Oscar Champs, stofnanda Proactiva, sem fullyrti að komandi kynslóðir muni skammast sín fyrir Salvini.

Yfirvöld á Spáni hafa veitt skipinu heimild til að koma til hafnar þar í landi í kjölfar „neitana frá höfnum í nálægum ríkjum.“ Siglingin tekur fimm til sex daga en annað skip á vegum Proactiva siglir til móts við skipið með mat og fleiri nauðsynjar.

Yfir 1.300 flóttamenn hafa látið lífið á leið sinni yfir hafið í leit að betra lífi á þessu ári, samkvæmt upplýsingum frá flóttamannaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna. (IOM).  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert