Spacey kærður fyrir kynferðisbrot

Kevin Spacey.
Kevin Spacey. AFP

Bandaríski leikarinn Kevin Spacey hefur verið kærður fyrir kynferðisbrot gagnvart unglingspilti á bar í ríkinu Massachusetts.

Hann mætir í dómsal 7. janúar vegna atviksins, sem er sagt hafa átt sér stað á eyjunni Nantucket í júlí árið 2016.

Spacey birti í dag myndskeið þar sem hann, sem karakterinn Frank Underwood úr þáttunum House of Cards, virðist neita því að hafa framið þau kynferðisbrot sem hann hefur verið sakaður um.

„Ég ætla svo sannarlega ekki að borga fyrir eitthvað sem ég gerði ekki,“ segir Spacey í myndskeiðinu, að því er BBC greindi frá.

„Þú myndir ekki trúa svona slæmum hlutum án sönnunargagna, er það nokkuð?“ spyr hann. „Þú myndir ekki draga skjótar ályktanir án staðreyndanna.“

Þetta er í fyrsta sinn sem Spacey kemur opinberlega fram síðan í nóvember í fyrra en hann hefur verið sakaður um fjölda kynferðisbrota. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert