Gætu fengið háar bætur

Parinu var sleppt eftir yfirheyrslur.
Parinu var sleppt eftir yfirheyrslur. AFP

Parið sem var hand­tekið vegna rann­sókn­ar í tengsl­um við dróna­flugið við Gatwick-flug­völl í London gæti fengið að minnsta kosti 75 þúsund pund, sem jafngildir 11,2 milljónum íslenskra króna, í skaðabætur frá dagblöðunum sem nafngreindu þau, samkvæmt lögmanni.

Lögmaðurinn Mark Stephens segir að parið, sem var sleppt úr haldi fyrir þremur dögum, sé með sterkt mál í höndunum kjósi þau að sækja sér bætur. 

„Skaðabæturnar eru líklega á bilinu 75 þúsund til 125 þúsund pund. Bæturnar gætu orðið hærri vegna þess að allir fjölmiðlarnir sem nafngreindu þau munu þurfa að borga eitthvað,“ sagði Stephens við Guardian.

Hann nefndi mál Cliff Richard en BBC var dæmt til að greiða söngv­ar­an­um skaðabæt­ur vegna um­fjöll­un­ar um að lög­regl­an í Suður-Jór­vík­ur­skíri hefði fram­kvæmt hús­leit á heim­ili hans fyr­ir fjór­um árum vegna gruns um barn­aníð.

Lögregla yfirheyrði parið á föstudag og greindi frá því að um væri að ræða 47 ára gamlan mann og 54 ára konu frá Crawley. Greint var frá nafni þeirra í fjölda dagblaða og Mail on Synday birti mynd af parinu þar sem stóð: „Eru þetta hálfvitarnir sem eyðilögðu jólin?“

Síðar sama dag sleppti lögregla fólkinu en það var ekki ákært vegna málsins.

Parið, Paul Gait og Elaine Kirk, ræddu við fjölmiðla fyrir utan heimili sitt í gær. Þau sögðu að brotið hefði verið á friðhelgi einkalífs þeirra þegar nöfn þeirra voru birt í fjölmiðlum og lögreglan leitaði á heimili þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert