Trump neitar að gefa vegginn eftir

Hluti landamæraveggsins eða landamæragirðingarinnar hefur verið byggður í Nýja-Mexíkó ríki.
Hluti landamæraveggsins eða landamæragirðingarinnar hefur verið byggður í Nýja-Mexíkó ríki. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að hluti ríkisstofnana Bandaríkjanna verði áfram lokaður á meðan demókratar neiti að samþykkja fjármögnun til frekari uppbyggingar á landamæravegg við landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó. CNBC greinir frá.

„Ég get ekki sagt ykkur hvenær ríkisstofnanir opna. Ég get sagt ykkur að það gerist ekki fyrr en við höfum landamæravegg eða girðingu, hvað sem þið viljið kalla það,“ sagði Trump spurður að því hvenær ríkisstofnanir myndu opna á nýjan leik.

Trump ítrekaði þá skoðun sína að einungis væri hægt að stöðva flæði eiturlyfja yfir landamærin til Bandaríkjanna og mansal með því að byggja vegg. „Við getum ekki gert það án fyrirstöðu. Við getum ekki gert það án veggs,“ sagði hann.

Demókratar eru alfarið á móti því að heimila frekari fjárveitingar til uppbyggingar landamæraveggs og vilja fremur eyða fjármunum í aukna tækniþróun við landamæraeftirlit.

Öldungardeildarþingmaðurinn Chuck Schumer og þingmaðurinn og leiðtogi minnihlutans í fulltrúadeild þingsins, Nancy Pelosi, saka Trump um að búa til ringulreið í landinu með afstöðu sinni og benda á lækkanir á hlutabréfamörkuðum máli sínu til stuðnings.

„Forsetinn vildi lokun, en hann virðist ekki átta sig á því hvernig hann á að koma sjálfum sér úr stöðunni,“ var haft eftir þeim í yfirlýsingu.

Trump hefur farið mikinn á samfélagsmiðlum undanfarna daga og hefur meðal annars haldið því fram að viljaleysi demókrata til að semja um fjármögnun landamæraveggsins muni á endanum kosta Bandaríkin meira en veggurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert