Frankenfurter komst heim fyrir jól

Lestarstjórarnir hugsuðu vel um Frankenfurter og hjálpuðu honum að rata …
Lestarstjórarnir hugsuðu vel um Frankenfurter og hjálpuðu honum að rata heim fyrir jólin. Ljósmynd/Twitter

Uppi varð fótur og fit hjá mæðgunum Evu og Cath Mackay þegar upp komst að bangsi fimm ára gömlu Evu var týndur, tveimur dögum fyrir jól. Eva var um borð í lest með móður sinni, Cath, frá Edinborg heim til Glasgow, þegar móðirin fattaði að bangsinn, sem heitir Frankenfurter, var hvergi sjáanlegur.

„Þetta var fyrsta gjöfin sem lífsförunautur minn gaf Evu og þess vegna grétum við báðar mjög mikið,“ segir Cath í samtali við BBC. Hún stofnaði Twitter aðgang í þeim tilgangi að lýsa eftir bangsanum. Hún bjóst ekki við miklum viðbrögðum en annað kom á daginn.

Emily Russel, 8 ára gömul stúlka, var stödd á lestarstöðinni þennan dag og sá Frankenfurter einan og yfirgefinn á bekk og benti hún móður sinni á hann. Mæðgurnar létu Frankenfurter í hendur starfsfólks á lestarstöðinni og birtu mynd af honum á Twitter.

Lestarstjórarnir í lestinni sem fer á milli Glasgow og Edinborgar fannst ekkert tiltökumál að kippa Frankenfurter með og koma honum til síns heima fyrir jólin.

Einstök vinátta hefur auk þess myndast milli mæðgnanna tveggja og hafa þær ákveðið að hittast sem fyrst og eiga góða stund saman og ræða um bangsana sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert